Erlent

Varar Rússa við afskiptum á Krímskaga

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Rússneskir fánar voru dregnir að húni á þaki þinghússins.
Rússneskir fánar voru dregnir að húni á þaki þinghússins. vísir/afp
Oleksandr Túrtsjínov, bráðabirgðaforseti Úkraínu, varar Rússa við hernaðarlegri íhlutun á Krímskaga, þar sem allt er nú á suðupunkti á milli stuðningsmanna Viktors Janúkovítsj, fyrrverandi forseta, og andstæðinga hans.

Aðvörunin kemur í kjölfar þess að vopnaðir menn hertóku þinghús og stjórnarráð borgarinnar Simferópól í morgun. Mennirnir eru sagðir sérsveitarmenn frá Sevastópól, stærstu borgar Krímskaga. Þinghúsið er umkringt mótmælendum og lögreglumönnum, og er rússneskum fánum flaggað á þaki hússins. Búið er að girða húsið af á meðan samið er við sérsveitarmennina.

Þá segir Arsení Jatsenjúk, nýskipaður forsætisráðherra Úkraínu, í samtali við BBC að hann óski þess að Rússar haldi sig fjarri átökunum. Jatsenjúk er einn helsti bandamaður Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra, sem var sleppt úr fangelsi í síðustu viku.

Ummæli leiðtoganna koma í kjölfar heræfinga Rússa skammt frá landamærum Úkraínu sem fram fóru í gær og héldu áfram í dag. Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATÓ, hefur einnig tjáð sig um ástandið og varar hann Rússa við því að blanda sér í deilurnar.

Fyrr í dag var greint frá því að Janúkovítsj, fyrrverandi forseti, líti enn á sig sem löglegan leiðtoga Úkraínu. Hann hefur leitað verndar hjá rússneskum stjórnvöldum sem hafa orðið við beiðni hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×