Erlent

Rússar sakaðir um innrás á Krímskaga

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vopnaðir menn við flugvöllinn í Simferopol í morgun.
Vopnaðir menn við flugvöllinn í Simferopol í morgun. Vísir/AP
Rússneskir hermenn standa vörð um alþjóðaflugvöll Svartahafsborgarinnar Sevastopol á Krímskaga. Rússnesk stjórnvöld segja ekkert hæft í því að þeir hafi lokað umferð um flugvöllinn. Hins vegar hafi rússneski herinn tekið að sér öryggisgæslu á þessum slóðum.

Þá hafa vopnaðir menn verið á verði við flugvöllinn í Simferopol, sem er höfuðstaður héraðsstjórnarinnar á Krímskaga. Mennirnir eru ekki merktir neinu tilteknu herliði og hafa ekki viljað ræða við fréttamenn.

Einn þeirra sagði þó AP fréttastofunni að þeir væru „heimavarnarlið” sem væri að gæta þess að engir „fasistar” frá Kænugarði eða annars staðar frá færu að gera innrás.

Viktor Janúkóvitsj, sem hraktist úr embætti forseta Úkraínu um helgina en hefst nú við í Rússlandi, hefur boðað til blaðamannafundar síðar í dag.

Spenna milli Úkraínu og Rússlands er mikil eftir að ný stjórn tók við völdum í Úkraínu, skipuð mið- og hægriflokkum sem hafa verið á móti nánari tengslum Úkraínu við Rússland.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×