Fótbolti

Barcelona tapaði fyrsta heimaleiknum á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Atlético Madrid getur náð þriggja stiga forskoti á toppi spænsku deildarinnar í fótbolta á morgun eftir að Barcelona tapaði óvænt 2-3 á móti Valencia á heimavelli í dag.

Barcelona var búið að vinna alla tíu heimaleiki sína í spænsku deildinni í vetur og hafði aðeins fengið á sig sex mörk í þeim. Þetta eru því ein óvæntustu úrslitin í spænsku deildinni á leiktíðinni.

Barcelona komst í 1-0 strax á 7. mínútu leiksins en Valencia-menn létu það ekki slá sig út af laginu og skoruðu þrjú mörk með fimmtán mínútna millibili í kringum hálfleikinn.

Lionel Messi lagði upp mark fyrir Alexis Sánchez á 7. mínútu og jafnaði síðan metin í 2-2 með marki úr vítaspyrnu á 54. mínútu.

Hinn tvítugi Paco Alcácer skoraði sigurmark Valencia á 59. mínútu en hann hafði áður lagt upp annað mark liðsins fyrir Argentínumanninn Pablo Piatti á 48. mínútu. Fyrsta mark Valenica gerði Dani Parejo rétt fyrir hálfleik.

Börsungar enduðu leikinn manni færri því Jordi Alba fékk sitt annað gula spjald á 77. mínútu leiksins.

Lionel Messi skoraði og lagði upp mark en það dugði ekki Barcelona.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×