Fótbolti

Ronaldo sá rautt í jafntefli

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo fékk beint rautt spjald í 1-1 jafntefli Real Madrid gegn Athletic Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Madrídarmenn vissu að með sigri gætu þeir komist upp fyrir Barcelona, stigi á eftir Atletico Madrid í toppsæti spænsku úrvalsdeildarinnar. Það var jafnræði með liðunum í leiknum en gestirnir frá Madrid náðu forskotinu um miðbik seinni hálfleiks. Ronaldo átti þá fyrirgjöf sem Jese renndi í netið en Jese var í liðinu í stað Gareths Bale sem er meiddur.

Ibai Gomez átti sannkallaða drauma innkomu fyrir Bilbao tíu mínútum seinna, aðeins örfáum sekúndum eftir að hann kom inná hafði hann skorað jöfnunarmarkið. Boltinn barst út á vítateig gestanna þar sem Ibai var mættur og smellti boltanum í hornið, stöngin-inn.

Ronaldo fékk afar ósanngjarnt rautt spjald aðeins örfáum mínútum síðar, ýtt var við Ronaldo sem lagði hönd sína á andlit Gurpegi, varnarmanns Bilbao. Við þetta fleygði Gurpegi sér í jörðina og liðsfélagi hans, Ander Iturraspe virtist reyna að skalla Ronaldo en dómari leiksins rak Ronaldo í sturtu og sleppti Iturraspe með gult spjald.

Þrátt fyrir að vera manni fleiri náðu heimamenn ekki að bæta við marki og lauk leiknum því með jafntefli. Stigið gerir lítið fyrir Bilbao en Real Madrid komst upp að hlið Barcelona með jafnteflinu, þremur stigum á eftir nágrönnunum í Atletico Madrid.





Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×