Fótbolti

Messi vonast til að toppa á réttum tíma

Þetta gæti verið stórt ár fyrir Lionel Messi.
Þetta gæti verið stórt ár fyrir Lionel Messi.
Lionel Messi er sannfærður um að hann verði kominn í sitt allra besta form undir lok leiktíðar og vonast til að toppa á réttum tíma enda HM í Brasilíu í sumar.

Argentínumaðurinn er nýbyrjaður aftur að spila eftir meiðsli en hann hefur tvívegis þurft frá að hverfa á tímabilinu vegna meiðsla.

„Mér líður mjög vel. Ég er fullur orku og ánægður með að vera byrjaður að spila aftur eftir langa fjarveru,“ segir Messi í viðtali við BBC.

„Ég er ánægður með standið á mér núna en hægt og örugglega mun ég komast í enn betra form og vonandi toppa á réttum tíma ársins.“

Barcelona er í baráttunni um Spánarmeistaratitilinn ásamt Atlético Madrid og Real Madrid en það er sem stendur í öðru sæti, þremur stigum á eftir Atlético.

Komist Messi í sitt rétta form verður erfitt að stöðva Börsunga á lokasprettinum en Argentínumaðurinn hefur þó „aðeins“ skorað 9 mörk í 15 leikjum á tímabilinu. Hann skoraði 46 mörk í 50 leikjum í fyrra og 50 mörk árið þar áður.

„Vonandi verður þetta ár gott. Ekki bara fyrir mig heldur Barcelona og Argentínu. Ég held að HM komi góðum tíma fyrir Argentínu. Við höfum þroskast sem lið bæði innan og utan vallar. Við erum með frábæra leikmenn sem elska spila fyrir sitt land. Spilum við almennilega í Brasilíu getum við farið alla leið,“ segir Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×