Enski boltinn

Ragnar: Ég einbeiti mér bara að fótboltanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty
Ragnar Sigurðsson segist lítið spá í áhuga félags frá Rússlandi á sér. Úrvalsdeildarliðið Krasnodar er sagt reiðubúið að borga 800 milljónir króna fyrir íslenska landsliðsmanninn.

Ragnar er á mála hjá FCK í Danmörku og félagið staðfesti í vikunni að það hefði fengið tilboð í hann frá Rússlandi.

„Ég er enn í Danmörku,“ sagði hann við danska fjölmiðla í dag. „FCK hefur ekki tekið tilboðinu og það eina sem ég veit er að félögin hafa ekki náð saman.“

„Ef að það gerist þá þarf ég að semja um kaup og kjör. Það er í höndum umboðsmannsins míns. Ég spila fótbolta og hann sér um allt annað. Ég vil bara einbeita mér að því sem ég geri,“ sagði Ragnar enn fremur.

Hann viðurkennir þó að það sé erfitt að hugsa um eitthvað annað þessa dagana. „En svona lagað verður auðveldara með aldrinum. Ég mæti á æfingar og skemmti mér með strákunum. Svo er ég með heimsókn frá Íslandi og við reynum að tala um allt annað en fótbolta.“

„Ég hef það gott í Kaupmannahöfn og líður vel hjá FCK. Hér á ég marga vini og ég elska borgina. Þannig að ég reyni bara að taka öllu með ró og spekt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×