Fótbolti

Zlatan: Ég kæmi frítt til Borussia Dortmund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic í leik með PSG.
Zlatan Ibrahimovic í leik með PSG. Mynd/AP
Zlatan Ibrahimovic og Jurgen Klopp, þjálfari Borussia Dortmund, göntuðust fyrir framan sjónvarpsvélarnar þegar þeir hittust á verðlaunahátíð FIFA á mánudagskvöldið þar sem umræðuefnið var möguleg koma Zlatans til Dortmund.

Jurgen Klopp lét hafa það eftir sér á dögunum að hann væri mikið til að þjálfa sænska landsliðsframherjann einhvern tímann í framtíðinni og hinn 32 ára gamli Zlatan Ibrahimovic rifjaði þessi ummæli upp þegar þeir hittust.

„Hvenær ætlar þú að ná í mig til Dortmund?," spurði Zlatan Ibrahimovic Jurgen Klopp fyrir framan myndavélarnar. „Ég þyrfti þá að selja allt liðið fyrst," svaraði Jurgen Klopp í léttum tón. Zlatan var ekki alveg sammála því.

„Ég kæmi frítt til Borussia Dortmund," sagði Zlatan og Jurgen Klopp athugaði hvort að sjónvarpsmennirnir hefðu ekki örugglega náð þessu. Zlatan var reyndar fljótur að taka það fram að þetta mætti nú ekki berast til forseta Paris Saint Germain enda er sá hinn sami nú að borga Zlatan ágætis laun fyrir að spila fyrir franska liðið.

Zlatan er með samning við PSG til júní 2016 en hann verður þá á 35 ára aldursári. Dortmund er hinsvegar að leita sér að framherja í sumar til að fylla skarð Pólverjans Robert Lewandowski sem er á leiðinni til Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×