Handbolti

Ásgeir um NFL: Skemmtilegast að horfa á Brady og Manning

Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar
Margir af strákunum okkar eru miklir áhugamenn um NFL-deildina og þeir bíða spenntir eftir leikjum kvöldsins enda eru það engir smá leikir.

Þó svo þeir viti mikið um deildina þá var það aðeins Ásgeir Örn Hallgrímsson sem þorði að koma og ræða leiki kvöldsins.

„Ég veit ekki hvaða feimni þetta er í strákunum. Þeir eru vel inn í þessu og ráða vel við þetta eins og ég,“ sagði Ásgeir léttur.

Hann er harður stuðningsmaður New England Patriots en Tom Brady og félagar sækja Peyton Manning og félaga í Denver Broncos heim í kvöld.

„Ég held að mínir menn vinni og svo klárar 49ers málið í Seattle. Brady og Manning er rjóminn í sportinu. Það er langskemmtilegast að horfa á þá tvö heldur en að horfa á hlaupagikkina í seinni leik kvöldsins.“

Þegar Patriots og Broncos mættust fyrr í vetur þá kom Patriots til baka eftir að hafa lent 24-0 undir.

„Ég sofnaði í hálfleik og hélt að það væri búið. Ég geri ekki þau mistök aftur,“ segir Ásgeir en hvað ætlar hann að vaka lengi í kvöld?

„Ég segi Aroni ekkert frá því en ég mun vaka eins lengi og ég get.“

Stöð 2 Sport sýnir báða leiki kvöldsins beint. Broncos gegn Patriots hefst klukkan 20.00 og seinni leikurinn á milli Seattle og San Francisco byrjar 23.30. Hægt er að horfa á NFL-spjallið við Ásgeir í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×