Erlent

Vilja herða skotvopnalöggjöf

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/AP

Ríkisstjórn Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, hefur tilkynnt aðgerðir til að herða skotvopnalöggjöf landsins og draga úr aðgengi geðsjúkra að skotvopnum. Breytingarnar munu laga óskýrar reglugerðir og leyfa heilbrigðisstofnunum að veita frekari upplýsingar við bakgrunnsskoðun.



Frá þessu er sagt á vef BBC.



Í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni sem gefin var út í dag segir að breytingarnar muni styrkja bakgrunnsskoðun vegna byssuleyfa og halda byssum úr röngum höndum. Breytingarnar munu þó ekki valda því að sá sem leitar sér aðstoðar vegna geðrænna vandamála geti sjálfkrafa ekki fengið leyfi til að eignast byssu.



Rúmlega eitt ár er liðið frá skotárásinni í Sandy Hook skólanum í Connecticut þar sem 20 börn og sex starfsmenn voru drepin. Skotmaðurinn er talinn hafa átt við mikil geðræn vandamál að stríða.



Í kjölfar árásarinnar lagði Obama fram tillögur um takmarkanir á byssueign í Bandaríkjunum en þær tillögur komust ekki í gegnum þingið. Hann hefur haldið því að draga úr byssueign til streitu, en svartsýnismenn hafa sagt að ef morð á 20 börnum hafi ekki dregið þingið til aðgerða sé óvíst hvað geti það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×