Körfubolti

Nýr Kani Snæfellinga kann svo sannarlega að troða | Myndband

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Travis Cohn í leik með háskólaliði sínu.
Travis Cohn í leik með háskólaliði sínu. Mynd/Grace Singer
„Hann kemur með aðeins öðruvísi víddir inn í okkar leik,“ segir Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari körfuknattleiksliða Snæfellinga, um nýja Kanann Travis Cohn. Félagaskipti hans voru staðfest á heimasíðu KKÍ í dag.

Cohn er 24 ára bakvörður sem hefur leikið með Springfield Armor í D-deildinni vestanhafs. Þar áður lék hann með háskólaliði Jacksonville.

„Hann er ekki algjör leikstjórnandi heldur spilar ýmist stöðu eitt og tvö,“ segir Ingi Þór. „Hann er ekki með rosalega merkilega ferilskrá en þeir sem ég hef rætt við gefa honum gott orð.“

Snæfellingar sækja Þór heim í Þorlákshöfn í Domino's-deild karla á föstudagskvöldið eftir jólafrí. Ingi Þór reiknar með Cohn í þann leik.

„Hann hjálpar okkur vonandi að efla andann og kveikja í öðrum leikmönnum. Fá alla til að virka. Við höfum ekki kveikt á öllum hreyflum ennþá.“

Fjölmörg myndbönd með tilþrifum Cohn má finna á veraldrarvefnum. Stutt samantektarmyndband af troðslum kappans má sjá hér að neðan.

Þá vakti athygli að frjálsíþróttakonan Helga Margrét Þorsteinsdóttir fékk staðfest félagaskipti inn í kvennalið Snæfellinga í dag. Systir hennar Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir spilar með þeim rauðklæddu.

Ingi Þór segir það hins vegar hafa komið sér á óvart að félagaskipti hennar hafi farið í gegn í dag. Snæfellingar hafi rætt við hana um að vera til taks í nóvember áður en félagaskiptaglugganum var lokað.

„Við vorum í manneklu rétt fyrir en náðum ekki að ganga frá þessu áður en félagaskiptalugganum var lokað,“ segir Ingi Þór. Því hafi félagskiptin dottið inn í dag.

Nú hafi því miður gömul meiðsli hins vegar tekið sig upp hjá Helgu Margréti og ekkert verið í umræðunni í margar vikur að hún spilaði með systur sinni í Hólminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×