Innlent

Missti soninn í flug­slysi: „Af hverju megum við ekki sjá?“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Kristín Dýrfjörð er móðir Sturlu Þórs Friðrikssonar sem fórst í flugslysi í Skerjafirði árið 2000.
Kristín Dýrfjörð er móðir Sturlu Þórs Friðrikssonar sem fórst í flugslysi í Skerjafirði árið 2000. mynd/gva

„Ísland er ekkert öðruvísi en önnur lönd og svona myndbönd birtast alls staðar,“ segir Kristín Dýrfjörð um birtingu Vísis í gær á myndbandi sem sýnir brotlendingu TF-MYX vélar Mýflugs á Akureyri í fyrra.

Kristín er móðir Sturlu Þórs Friðrikssonar sem fórst í flugslysi í Skerjafirði árið 2000 og segist hún ekki hafa nokkurn áhuga á því að sjá myndbandið af flugslysinu á Akureyri. Hún segir hins vegar á Facebook-síðu sinni að hún skilji ekki þá afstöðu að birting myndbandsins í gær hafi verið „tilfinningaklám“.

„Okkur finnst sjálfsagt að skoða sambærileg myndbönd utan úr heimi, og allir miðlar um allan heim birta svona myndir,“ segir Kristín í samtali við Vísi. „Á sama tíma eru margir á þeirri skoðun að myndbönd af atvikum hér heima eigi að loka inni og helst henda öllum afritum nema til opinberra aðila. Það gengur ekki upp.“

Gætir tortryggni þegar hlutirnir eru lokaðir

Kristín nefnir erlend dæmi um myndbönd af hörmungaratburðum sem ratað hafa í heimsfréttirnar. Tekur hún sem dæmi árásina á Tvíburaturnana í New York árið 2001.

„Hálfur heimurinn sat límdur yfir þeim atburði þar sem þúsundir létu lífið,“ segir Kristín og nefnir einnig lestarslysið á Spáni í fyrrasumar þar sem 77 létust. „Við setjum okkur upp eins og við séum eitthvað öðruvísi en annað fólk í heiminum. En það gætir tortryggni þegar hlutirnir eru lokaðir. Af hverju megum við ekki sjá?“

Skjáskot úr myndbandinu sem Vísir birti í gær af brotlendingunni við Hlíðarfjall.

Birtingin mikilvæg

Í langri stöðuuppfærslu á Facebook segist Kristín treysta rannsóknarnefndinni hæfilega. Orðalagið í frumskýrslunni gefi ekki tilefni til annars.

„Ef einhvern tímann er réttur tími til að fjalla um slysið er það einmitt núna þegar enn gefst tími til að vinna sanngjarna skýrslu. Ekki gleyma að það eru aðstandendur eins þeirra sem fórst í slysinu sem eru ekki sáttir við skýrsluna og opnuðu á málið.“

Hún segir birtingu myndbandsins mikilvæga fyrir þá sem eru að skoða málið frá mörgum hliðum og með því að gera það opinbert sé það um leið orðið gagn fyrir þá sem hafa sértæka þekkingu á flugi og geta lagt sjálfstætt mat á það sem þar kemur fram. Jafnvel þó þeir séu ekki á launum hjá rannsóknarnefndinni.

„Flakið er bara flak“

Kristín segist við Vísi varla muna eftir umfjöllun um flugslys síðasta áratug þar sem myndir frá Skerjafjarðarslysinu þar sem sonur hennar fórst eru ekki notaðar.

„Við hjónin ætluðum ekkert að skipta okkur af opinberri umfjöllun um slysið núna enda þjóðin eflaust búin að fá nóg af okkur, en mér ofbauð í gær þegar ég las status eftir status um að þetta væri bara tilfinningaklám.“

Um flugslysið í Skerjafirði segir hún á Facebook að sennilega líði ekki sá dagur að hún hugsi ekki um atburðinn og afleiðingar hans á einn eða annan hátt, en að flakið sé bara flak.

„Að heyra fréttir af ungu fólki sem lætur lífið í slysum eða örkumlast, það hreyfir við mér. Að heyra af fréttir af flugslysum og öðrum slysum, hreyfir við mér. Að heyra þyrluna koma inn á nóttinni hreyfir við mér. Að skynja það að einhverstaðar sé fólk sem er að ganga í gegn um erfiðustu stundir lífsins, hreyfir við mér. Mér er oft hugsað til starfsfólks á gjörgæsludeildum, til þeirra sem bíða skelkaðir í aðstandandaherbergjum. Það hreyfir við mér og finn að þá er stutt í kvikuna. Flak er hinsvegar bara flak.“

Frá minningarathöfn um þá sem létu lífið í flugslysinu í Skerjafirði.mynd/valli

Tengdar fréttir

Myndband af flugslysinu við Hlíðarfjallsveg

Fréttastofa 365 birtir nú í fyrsta sinn opinberlega myndband sem sýnir þegar TF-MYX sjúkraflugvél Mýflugs brotlendir á akstursíþróttabraut við Hlíðarfjallsveg á Akureyri hinn 5. ágúst 2013. Tveir létust í flugslysinu. Fréttastofan metur það svo að birting myndbandsins eigi erindi við almenning m.a vegna forvarnar- og upplýsingagildis.

Þriðja slysið í lágflugi á fjórum árum

Flugslysið við Hlíðarfjall á Akureyri í fyrra sem Vísir hefur fjallað um í dag er það þriðja á rúmum fjórum árum þar sem flugvél var í lágflugi.

Ísland í dag: Fréttaskýring um flugslysið við Hlíðarfjallsveg

Í meðfylgjandi myndskeiði má nálgast fréttaskýringu sem birtist í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld um flugslysið á akstursíþróttabrautinni við Hlíðarfjallsveg á Akureyri 5. ágúst síðastliðinn. Fjölskylda eins þeirra sem lést í slysinu hefur efasemdir um rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa og hefur farið fram á lögreglurannsókn á slysinu.

Vilja rannsókn á Hlíðarfjallsslysinu

Bróðir sjúkraflutningamanns sem fórst er sjúkraflugvél brotlenti á kappakstursbraut á Akureyri í ágúst hyggst krefjast opinberrar rannsóknar á slysinu. Flugstjórinn lést einnig í slysinu en aðstoðarflugmaðurinn, sem varaði hann við því að flogið væri allt

Ostaflutningar töfðu sjúkraflug

Sjúklingur er sagður hafa þurft að bíða í klukkustund á Egilsstöðum eftir sjúkraflugi á vegum Mýflugs en flugvélin tafðist þar sem verið var að flytja hálft tonn af osti fyrir Bónus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×