Sport

Lét mála merki mótherjanna á æfingavöll liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean Payton, þjálfari New Orleans Saints.
Sean Payton, þjálfari New Orleans Saints. Mynd/NordicPhotos/Getty
Sean Payton, þjálfari New Orleans Saints í ameríska fótboltanum, er tilbúinn að fara nýjar leiðir til þess að undirbúa lið sitt andlega fyrir leikinn á móti Seattle Seahawks í úrslitakeppni NFL-deildarinnar um næstu helgi.

Payton fékk nefnilega starfsmenn æfingasvæðisins hjá New Orleans Saints til að mála merki Seattle Seahawks á æfingavöllinn til að venja leikmenn liðsins við að spila á velli Seahawks. Það er hægt að sjá twitter-færsluna hjá New Orleans Saints hér fyrir neðan.

Leikurinn á CenturyLink Field í Seattle fer einmitt fram á heimavelli Seattle Seahawks. Það er þó ekki sjálfur leikvöllurinn sem mun reynast Dýrlingunum erfiðastur heldur frekar frábært varnarlið Seattle Seahawks sem og hinir háværu stuðningsmenn liðsins. Það er jafnan talað um CenturyLink Field sem einn allra háværasta völlinn í Bandaríkjunum.

New Orleans Saints vann 26-24 sigur á Philadelphia Eagles í Wild Card-leik um síðustu helgi en Seattle sat þá hjá þar sem að liðið var með bestan árangur allra liða í Þjóðardeildinni.

Leikur Seattle Seahawks og New Orleans Saints fer fram á laugardalskvöldið og í boði er úrslitaleikur Þjóðardeildarinnar á móti annaðhvort Carolina Panthers eða San Francisco 49ers.

Mynd/NordicPhotos/Getty
NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×