Fótbolti

Ragnar: Frétti þetta fyrst á Facebook

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar í leik með FCK.
Ragnar í leik með FCK. Nordic Photos / Getty
Ragnar Sigurðsson hafði ekki heyrt af meintum áhuga rússnesks félags á sér en danskir fjölmiðlar greindu frá honum í morgun.

Ragnar var nýkominn heim frá æfingu með liði sínu, FCK í Danmörku, þegar að Vísir heyrði í honum.

„Það vissu allir af þessu á æfingunni enda allir búnir að lesa greinina í Ekstra Bladet,“ sagði Ragnar. „En ég hafði ekkert heyrt af þessu sjálfur. Ég veit ekki hvort það sé til eitthvað í þessu. Mér var fyrst bent á þetta á Facebook í morgun.“

Sölvi Geir Ottesen, fyrrum liðsfélagi Ragnars í FCK, samdi við FC Ural í Rússlandi í sumar og því væri auðvelt fyrir Ragnar að leita ráðlegginga.

„Ég hef aldrei spáð í því áður hvernig það væri að spila í Rússlandi. En Sölvi hefur talað mjög vel um dvöl sína þar og maður er því allavega ekkert neikvæður fyrir þessu. En ég hef aldrei velt þessu fyrir mér að neinni alvöru,“ sagði Ragnar.

Ragnar og Rúrik Gíslason, leikmenn FCK, fengu ekki heimild hjá félagi sínu til að spila æfingaleik með íslenska landsliðinu gegn Svíþjóð síðar í mánuðinum en sá leikur fer fram í Abú Dabí.

„Maður vill auðvitað spila alla landsleiki, sérstaklega gegn liðum eins og Svíþjóð. En það varð snemma ljóst að við myndum ekki fara og þá velti ég þessu ekkert meira fyrir mér. Þetta er bara svona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×