Íslenski boltinn

Hrakfarir Söndru hræða ekki Soffíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir.
Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir. Mynd/Daníel
Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir, lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Stjörnunnar, er á leiðinni í atvinnumennsku en hún ætlar að spila með sænska liðinu Jitex á næsta ári.

„Ég er á samning hjá Stjörnunni en Stjarnan hefur vitað lengi að ég væri að fara út. Ég er búin að æfa með Jitex í desember og þetta er komið nánast alla leið,“ segir Soffía. Hún er 25 ára og spilar oftast sem vinstri bakvörður en hefur einnig leyst stöðu kantmanns og miðjumanns með Stjörnunni undanfarin ár.

„Ég er í mastersnámi í verkfræði í Gautaborg og valdi það út frá því að ég vissi að ég gæti komist að í fótboltanum.  Ef það er einhvern tímann tímapunktur fyrir mig að fara að spila úti þá er það núna. Þetta verður smá keyrsla en það er allt hægt,“ segir Soffía.

Liðsfélagi hennar Sandra Sigurðardóttir lenti upp á kant við sænska liðið fyrir nokkrum árum en Soffía hefur ekki áhyggjur af því. „Það er ný stjórn, nýtt þjálfarateymi og allt nýtt þarna. Það eru líka margir nýir leikmenn að koma inn,“ segir hún.

Soffía hefur verið í aðalhlutverki í uppgangi Stjörnuliðsins. „Ég held að ég hafi komið í liðið 2004 og við Adda (Ásgerður Stefanía Baldursdóttir) erum búnar að spila níu tímabil saman og höfum gengið í gegnum súrt og sætt saman. Það er alveg erfitt að kveðja Stjörnuna en ég mun alltaf koma aftur. Ég enda alltaf á Íslandi," segir Soffía. En hvert stefnir Jitex?

„Jitex-liðið hefur endað í níunda til tíunda sæti einhver fjögur ár í röð. Ég held að stefnan sé að komast hærra upp töfluna. Það er gaman að taka þátt í þessari endurnýjun og þessum tímamótum sem eru í Jitex núna," segir Soffía og bætir við:

„Ég er komin með smá reynslu af því hvernig menn búa til meistaralið. Þú býrð ekki til meistaralið á einu ári og ég býst því við að næsta tímabil verði svolítið strembið," segir Soffía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×