Skoðun

Rás 1

Páll Magnússon skrifar
Þeir sem staðið hafa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum í tólf gömlum vindstigum að suðaustan vita að það þýðir ekki að tala við fólk beint upp í þannig bálviðri. Orðin feykjast bara aftur fyrir mann. Núna vona ég að það sé lag til að segja þó ekki væri nema þetta: Það er ekki verið að leggja niður Rás 1. Það er ekki verið að rífa hana á hol. Það er ekki verið að slökkva á menningarvitanum. Það er heldur ekki verið að breyta meginstofni Rásar 1; inntaki hennar né eðli. Dagskrárstefna hennar, hlutverk, upplegg og innihald verður áfram hið sama. Áfram verða flutt útvarpsleikrit. Áfram verða lesnar útvarpssögur.

Áfram verða flutt ljóð. Áfram verður útvarpað frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Áfram verður fjallað um menningar- og samfélagsmál í vönduðum þáttum. Áfram verður flutt tónlist af öllum stærðum og gerðum frá öllum heimshornum. Áfram verða tíndar upp úr gullkistu Rásar 1 gersemar frá liðnum tíma til að tengja saman nútíð og fortíð.

Áfram verða líka fluttar dánarfregnir og upplýsingar um jarðarfarir. Og tilkynningar um félagsvist á Hólmavík og Raufarhöfn. Og jólakveðjur.

Í stuttu máli: Rás 1 heldur áfram að vera Íslendingum að inntaki allt það sem hún hefur verið þeim í 83 ár. Hún verður hins vegar að laga sig að minni fjárráðum, búa sér ódýrari umgjörð og spjara sig með færra starfsfólki en áður. Eins og allir aðrir þættir í starfsemi Ríkisútvarpsins.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×