Fótbolti

Ragnar telur möguleika FCK gegn Real Madrid góða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar í baráttu við Karim Benzema í fyrri leiknum á Spáni.
Ragnar í baráttu við Karim Benzema í fyrri leiknum á Spáni. Nordicphotos/Getty
Ragnar Sigurðsson, miðvörður FC Kaupmannahafnar, hlakkar til að glíma við stórstjörnurnar í liði Real Madrid í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.

Með sigri nær FCK þriðja sæti riðilsins svo framarlega sem Juventus tapi ekki gegn Galatasaray. Nái Tyrkirnir jafntefli gegn ítölsku meisturunum þarf FCK að leggja Real að velli. Þriðja sætið í riðlinum gefur þátttökurétt í 32-liða úrslitum Evrópudeildar eftir áramót.

„Ég tel möguleika okkar góða. Við erum alltaf miklu betri á heimavelli en útivelli. Völlurinn er ekki í góðu ástandi sem mun hjálpa okkur,“ segir Ragnar. FCK fékk ekki að æfa á vellinum í gær og líkti þjálfarinn, Ståle Solbakken, honum við kartöflugarð.

Ragnar verður að óbreyttu í byrjunarliðinu í kvöld og Rúrik Gíslason er klár í slaginn eftir að hafa meiðst lítillega í síðustu viku.

Ragnar minnir á að danska liðið hafi aldrei tapað á heimavelli í Meistaradeildinni.

„Það er því smá pressa á okkur að halda því gengi,“ segir Árbæingurinn sem segir skemmtilegt að fá að sýna hvað maður geti gegn þeim bestu í heimi.

„Ef maður stendur sig vel sést að maður getur spilað á þessu gæðastigi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×