Fótbolti

Ragnar glímir við Carlos Tevez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Sigurðsson er í stóru hlutverki hjá FCK.
Ragnar Sigurðsson er í stóru hlutverki hjá FCK.
Landsliðsmennirnir Ragnar Sigurðsson og Rúrik Gíslason verða báðir í eldlínunni með danska liðinu FC Kaupmannahöfn í Meistaradeild Evrópu í kvöld en þá fara fram síðari leikirnir í fimmtu og næstsíðustu umferð riðlakeppninnar. FCK mætir þá stórliði Juventus í Tórínó í afar mikilvægum leik í B-riðli.

Real Madrid stendur langbest að vígi í riðlinum með tíu stig en Galatasaray og FCK koma næst með fjögur. Gengi Juventus hefur komið á óvart en liðið, sem er enn án sigurs í riðlinum, er með þrjú stig í neðsta sæti.

Juventus er þó á toppnum í deildinni heima og vonast Antonio Conte, stjóri liðsins, til að liðið nýti sér þann meðbyr fyrir leikinn mikilvæga í kvöld. „Við vonumst eftir góðum úrslitum í kvöld en þetta er enn allt saman í okkar höndum. Við þurfum ekki að treysta á neina aðra,“ sagði Conte í gær.

Ragnar hefur verið fastamaður í vörn FCK og fær því það mikilvæga hlutverk að gæta hinna stórhættulegu Carlos Tevez og Fernando Llorente, sóknarmanna Juventus. Líklegt þykir að Rúrik Gíslason byrji einnig en hann lagði upp sigurmark sinna manna gegn Galatasaray í síðustu umferð. Sá sigur opnaði baráttuna um annað sæti riðilsins upp á gátt.

Real Madrid tekur á móti Galatasaray í hinni viðureign kvöldsins og mun með sigri gulltryggja sér sigur í riðlinum og þar með sæti í 16 liða úrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×