Körfubolti

Pálína: Ég er bara eins og gömul kona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir fær hér stuðning frá liðsfélaga sínum, Marínu Rós Karlsdóttur.
Pálína Gunnlaugsdóttir fær hér stuðning frá liðsfélaga sínum, Marínu Rós Karlsdóttur. Mynd/Daníel
Pálína Gunnlaugsdóttir, besti leikmaður úrvalsdeildar kvenna undanfarin tvö tímabil, veit ekki enn hversu alvarleg hnémeiðslin eru sem hún varð fyrir í leik á móti Ásvöllum á miðvikudagskvöldið.

„Það er ekkert komið í ljós og ég er bara að bíða eftir því að Jonni (Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Grindavíkur) geti troðið mér inn í segulómskoðun,“ sagði Pálína við Fréttablaðið í gær.

„Læknunum á sjúkrahúsinu fannst ólíklegt að þetta væri krossbandið. Þeir töldu frekar að þetta væri liðþófinn og að ég hafi teygt á liðbandinu. Það getur verið átta dagar eða átta vikur frá aðgerð,“ sagði Pálína. Hún upplifði mikinn sársauka á gólfinu í Schenkerhöllinni.

„Ég fékk þvílík sterk verkjalyf á spítalanaum því þeir sprautuðu morfíni í mig, bæði magann og í hendina. Sjokkið er kannski ekki alveg komið en ég verð bara að vera bjartsýn og jákvæð þangað til að eitthvað kemur út úr þessu,“ sagði Pálína.

„Ég get stigið aðeins í löppina en ég get ekki lyft henni upp til hægri eða vinstri því þá kemur þvílíkur sársauki. Ég fær líka mjög mikinn verk ef hann er að dingla eitthvað. Ég er bara eins og gömul kona,“ segir Pálína sem ætlar samt að vona það besta þangað til allt kemur í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×