Sport

Eitt símtal og úr varð stjarna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hafdís Sigurðardóttir við keppni á Þórsvelli.
Hafdís Sigurðardóttir við keppni á Þórsvelli. Mynd/Gunnlaugur Júlíusson
„Mér fannst rosalegur heiður að Gísli skyldi hringja í mig og spyrja hvort ég ætlaði ekki að koma að æfa. Hann skildi ekkert í því hvar ég var. Ég hafði einhvern veginn misst kjarkinn og þróttinn,“ segir Hafdís Sigurðardóttir um afdrifaríkt símtal haustið 2004.

Frjálsíþróttaþjálfarinn Gísli Sigurðsson var þá byrjaður að þjálfa frjálsíþróttafólk á Akureyri. Gísli, sem gert hafði garðinn frægan sem þjálfari tugþrautarkappans Jóns Arnars Magnússonar og hinar fjölhæfu Sunnu Gestsdóttur, vissi af efnilegri íþróttakonu og heyrði í henni hljóðið. Óhætt er að segja að eitt símtal getur gert kraftaverk.

Hafdís, sem í dag er Íslandsmethafi í langstökki, var þá tiltölulega nýflutt til Akureyrar frá Tjarnarlandi í Ljósavatnsskarði í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem hún er alin upp. Nám í Verkmenntaskólanum var á dagskrá auk þess sem æfa skyldi frjálsar af kappi.

„Ég var svolítið til baka og átti erfitt með að komast inn í hópinn,“ segir Hafdís sem fékk auk þess beinhimnubólgu sem olli henni miklum sársauka.

„Við æfðum tvisvar í viku í sveitinni auk skólaleikfimi,“ segir Hafdís sem var ekki tilbúin í miklu meira og öðruvísi æfingaálag í höfuðstað Norðurlands. Með leiðsögn Gísla og miklum aga tókst henni á tveimur árum að vinna bug á beinhimnubólgunni – halda henni niðri að minnsta kosti.

„Ég lyfti mikið og hljóp í vatni til að minnka álagið á fæturna,“ segir Hafdís sem verður sjaldnast vör við hana í dag. Beri svo undir veit hún hvernig bregðast á við.

Hafdís átti frábært síðasta keppnistímabil og stefnir ótrauð á bætingu á komandi tímabili.Mynd/Björn Ingvarsson
Sunna eins og Usain Bolt

Tvær æfingar í viku þykir ekki mikið hjá efnilegu íþróttafólki sama til hvaða íþróttagreinar er litið. Hafdís lýsir því þannig að hún hafi verið ung en aldrei sú efnilegasta.

„Ég var alltaf í fremstu röð en aldrei súperstjarna. Nú er ég gömul og sæmileg,“ segir hin 26 ára Hafdís og hlær. Ekki er hægt að taka undir orðavalið enda Hafdís ein af okkar fremstu íþróttakonum. En hún hefur þurft að hafa fyrir hlutunum.

„Ég er ekki endilega fædd í frjálsar heldur hef ég unnið gríðarlega fyrir þessum árangri,“ segir Hafdís. Bætingin hefur verið nokkuð stöðug á milli ára og toppnum náð síðastliðið sumar, hingað til, þegar Íslandsmetið í langstökki var staðreynd.

„Ég hef horft löngunaraugum á þetta met frá því ég var lítil stelpa,“ segir Hafdís. Metið var í eigu Skagfirðingsins Sunnu Gestsdóttur sem Hafdís leit mikið upp til.

„Þegar ég keppti við hana fannst mér hún á pari við Usain Bolt. Hún var svo rosalega fljót og sterk,“ segir Hafdís, sem að mörgu leyti hefur fetað í fótspor Sunnu. Fjölhæfni er þeirra styrkleiki enda er Íslandsmetið í 100 metra hlaupi enn í eigu Sunnu.

Hafdís viðurkennir að hún renni hýru auga til metsins. Fyrst ætli hún sér þó að bæta Íslandsmet Sunnu í langstökki innanhúss. En af hverju ekki að setja allan tímann og orkuna í eina grein?

„Það er svo rosalega gaman að geta gert þetta allt saman. Svo hjálpar auðvitað að hlaupa hratt í atrennunni í langstökki,“ segir Hafdís, sem hleypur einnig 200 metra og 400 metra. Íslandsmet Guðrúnar Arnardóttur í fyrri greininni er innan seilingar og engin hljóp 400 metrana hraðar en Hafdís í sumar.

Hafdís ásamt Anítu Hinriksdóttur og Kolbeini Höð Gunnarssyni.Mynd/Gunnlaugur Júlíusson
Vildi borða nammi uppi í sófa

Versti óvinur íþróttamannsins eru meiðsli. Þau gera sjaldnast boð á undan sér. Áður var vikið af beinhimnubólgu Hafdísar þegar hún var 17 ára. Þá tognaði hún aftan í læri í langstökki í upphafi sumars árið 2007.

„Það var mikið áfall og ég var frá allt sumarið,“ segir Hafdís, sem gerði þó örvæntingarfulla tilraun til að keppa á Meistaramótinu í lok sumarsins. Tognunin endurtók sig og fram undan var endurhæfing og sjúkraþjálfun. Aftur varð Hafdís fyrir áfalli í nóvember í fyrra þegar liðþófi í hné gaf sig. Það var gríðarlegt áfall enda hafði hún lagt afar hart að sér og Evrópumótið innanhúss á næsta leiti.

„Ég var á ógeðslega erfiðum æfingum hjá Gísla en ég fann að þetta var að gerast. Allt var léttara en áður og ég gat gert meira en nokkru sini fyrr,“ segir Hafdís. Áfallið var mikið og segist Hafdís hafa verið rosalega langt niðri.

„Ég gat ekki farið á æfingu. Hvað átti ég að gera? Liggja uppi í sófa og borða nammi? Mig langaði það kannski en ég gerði það ekki,“ segir frjálsíþróttakonan. Löngunin og ástríðan hafi verið ofar öllu. Og viti menn. Hafdís mætti á sitt fyrsta mót í janúar, hundsvekkt yfir að hafa misst úr mánuð við æfingar en bætti sig engu að síður. Svo fór að hún bætti sig í öllum greinum innanhúss síðastliðinn vetur.

„Ég hafði byggt upp rosalega vel. Svo kom mjög löng hvíld með engu álagi. Svo byrjaði ég aftur rólega og náði að uppskera. Samt ekki alveg nógu mikið því ég náði ekki lágmarkinu á EM.“

Mynd/Gunnlaugur Júlíusson
Gæti ekki flutt suður

Hafdís hóf nám í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri nú í haust. Flestir hefja háskólanám upp úr tvítugu en í tilfelli Hafdísar er hún nær þrítugu.

„Ég hef frestað því að fara í skóla þar til núna því ég vildi taka íþróttirnar á annað stig,“ segir Hafdís. Hún viðurkennir að hún velti mjög oft fyrir sér hvort þær séu þess virði.

„Þegar maður kemst varla upp stigann þegar undirbúningstímabilið er gjörsamlega að drepa mann. Þegar mann langar ekki á æfingu vegna þreytu. Þegar fjárhagsstaðan er svo slæm að þú ræður ekki við hana.“ Hún er þó fljót til svars hvers vegna hún haldi, þrátt fyrir þetta, áfram.

„Þegar maður nær að uppskera eins og ég gerði í sumar þá er þetta margfalt erfiðisins virði,“ segir Hafdís. Nú finnst henni hún að vissu leyti vera að fórna árangri í frjálsum með því að setjast á skólabekk. Auk þess vinnur hún lítillega með þessu öllu saman. Hver króna skiptir máli.

„Ég hef aldrei fengið neina afreksstyrki frá Íþrótta- eða Frjálsíþróttasambandinu,“ segir Hafdís. Hennar styrkir komi að norðan og úr sveitinni. Ekki hjálpi landsbyggðarfólkinu sá kostnaður sem til fellur við ferðalög til höfuðborgarinnar að keppa.

„Maður verður stundum móðgaður þegar fólkið að sunnan kemur norður á eitt mót. Svo höldum við annað og spyrjum hvort þau ætli ekki að mæta. Þá er svarið að þau séu búin að koma norður í sumar,“ segir Hafdís.

Á meðan fara félagarnir úr UFA kannski sex ferðir yfir veturinn og sama gildi um sumarið. Við bætast utanlandsferðir sem hefjist með ferð til Reykjavíkur. En gæti hún hugsað sér að flytja suður?

„Ekki séns. Ég kem því ekki í orð hve fegin ég er og hamingjusöm að vera hér. Það eru forréttindi að fá að vera hérna í friði. Ég er í vernduðu og flottu umhverfi og aðstaðan er fín.“

Keppinautarnir í 400 metra hlaupinu.Mynd/Gunnlaugur Júlíusson
Fór að háskæla

Hafdís stökk 6,31 metra á móti norðan heiða snemma síðasta sumar. Íslandsmet í langstökki var staðreynd en met Sunnu Gestsdóttur var 6,30 metrar.

„Þegar ég heyrði töluna og að vindurinn hefði verið löglegur fór ég að háskæla,“ segir Hafdís. Einn sentimetri er einn sentimetri. Gísli þjálfari sagði henni að taka sig saman í andlitinu og klára keppnina með stæl.

„Ég var búin að setja Íslandsmet og langaði bara að fagna. Sem betur fer missti ég mig ekki því ég bætti metið frekar í seinasta stökkinu,“ segir Hafdís og enn streymdu tárin.

„Ég hringdi svo í mömmu og grét enn meira. Það ætlaði enginn að trúa þessu.“





Mynd/Gunnlaugur Júlíusson
Ekki fyrir hástökk og grindahlaup

Hafdís æfði fjölmargar greinar á yngri árum en ákvað snemma að hástökk væri ekki fyrir sig.

„Ég lenti einu sinni svo illa á ránni og fór að grenja. Þá ákvað ég að ég skyldi aldrei æfa hástökk. Það var eitthvað sem ég beit í mig. Aldrei aftur,“ segir Hafdís sem gaf grindahlaupi líka tækifæri.

Í eitt skiptið varð hún Íslandsmeistari í greininni þrátt fyrir að finnast grindahlaupið ekki skemmtilegt. Hún gekk því til þjálfarans, Jóns Friðriks Benónýssonar, og tilkynnti að hún væri hætt keppni í greininni við mikla undrun þjálfarans.

Mynd/Gunnlaugur Júlíusson
„Við höfum trú á þér“

Hinn 10. júní síðastliðið sumar barst Hafdísi góður glaðningur. Heiðrún systir hennar hafði staðið fyrir söfnun henni til stuðnings og lögðu á sjöunda tug manna sitt af mörkum.

Ávísunin hljóðaði upp á 330 þúsund krónur og skilaboðin þau að fólkið styddi við bakið á Hafdísi á leið hennar á toppinn.

„Þú ert einstök persóna sem og íþróttamaður og vitum að framtíð þín er björt. Hafðu trú á þér og þínum markmiðum. VIÐ höfum trú á þér!“

Mynd/Stefán
Lömbin kalla

Hafdís er alin upp á bóndabæ þótt foreldrarnir séu ekki bændur. Það er hins vegar föðursystir hennar og afi sem býr í nágrenninu. Þangað fer Hafdís ár hvert í maí.

„Ég flyt þangað, vaki á nóttunni og tek á móti lömbunum,“ segir hún. Gísli þjálfari hefur skilning á þörf hennar auk þess sem tímasetningin er ágæt. Keppnistímabilið handan við hornið og tími til að fækka æfingum og hvíla.

„Sauðburðurinn er svo sem ekki mikil hvíld þannig séð. En maður fær góða orku út úr því.“

Fluga í augað

Illa hafði gengið hjá íþróttakonunni á móti í Gautaborg á síðasta ári. Fyrir lokagreinina, 400 metra hlaup, var hún að spá í að sleppa greininni. Hún var þjálfaralaus en Gísli taldi hana á það símleiðis að keppa.

Allir bestu hlaupararnir hlupu í sama riðli en á því áttaði Hafdís sig ekki. Hún náði forystu og hafði hana enn í seinni beygjunni þegar hún fékk flugu í augað.

„Ég klára hlaupið og öskra strax upp í stúku að ég hafi fengið flugu í augað,“ segir Hafdís og uppskar mikinn hlátur nærstaddra. Hún hafði miklar áhyggjur af því að hafa stigið á línuna í beygjunni þegar hún átti erfitt með sjón en svo reyndist ekki vera.

„Ég bætti mig um tæplega sekúndu,“ segir Hafdís, sem bætti tímann aftur síðastliðið sumar – flugulaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×