Dauðadans í Kópavogi Jón Viðar Jónsson skrifar 23. september 2013 08:00 Harmsaga: "Þegar á allt er litið er vart hægt að segja annað en að höfundur jafnt sem starfsfólk leikhússins hafi hér unnið góðan sigur.“ LEIKLIST: Harmsaga Höfundur Mikael Torfason. Leikstjórn Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar Eva Signý Berger. Tónlist John Grant. Hljóðmynd Kristinn Gauti Einarsson. Lýsing Magnús Arnar Sigurðarson. Leikarar Elma Stefanía Ágústsdóttir og Snorri Engilbertsson. Dramatúrg Halldór Halldórsson. Sýnt í Kassa Þjóðleikhússins Sýning Þjóðleikhússins á Harmsögu Mikaels Torfasonar er verk ungra leikhúsmanna. Leikritið er fyrsta sviðsverk höfundar og leikstjórinn er einnig að vinna í fyrsta sinn í fullgildu atvinnuleikhúsi. Báðir leikendurnir eru nýútskrifaðir, hvorugur hefur tekist á við svo kröfuhart verkefni áður. Því er sérlega gleðilegt hversu hér hefur vel til tekist. Verkið sjálft á brýnt erindi við okkur og allir, sem að sýningunni koma, skila sínu með sóma. Kvöldstundin verður áhrifamikil og eftirminnileg. Þetta mætti oftar vera svona í Þjóðleikhúsinu. En sýningin gerir kröfur til áhorfenda. Framsetningin er óhefðbundin; okkur er ekki boðið upp á sögu með upphafi, miðju og endi í þessum klassíska skilningi. Þarna er fyrst og fremst verið að lýsa ástandi og áhorfandanum verður í upphafi ljóst í hvaða átt stefnir. Samband ungu hjónanna, sem leikurinn fjallar um, er komið í þrot. Þau búa í blokkaríbúð í einu af nýju Kópavogshverfunum með tveimur börnum; hann er fluttur að heiman, farinn aftur til pabba og mömmu, en er þó ekki fluttur að heiman; þau vita hvorugt hvar þau standa. Vítahringurinn er sýndur með því að sama atriðið er endurtekið með tilbrigðum: það á að fara að halda upp á afmæli litlu dóttur þeirra, hún er að undirbúa það, komin í glas þegar hann birtist, áður en varði er allt komið í háaloft. Það er aldrei hægt að ræða neitt og áfengið eitrar öll samskipti. Þetta gerist snöggt og markar aðferð leiksins: stutt, jafnvel örstutt brotakennd atriði sem flakka fram og aftur í tíma og rúmi. Minningum frá gamla góða tímanum, þegar ástin brann og framtíðin var böðuð rósrauðri birtu drauma og vona, bregður öðru hvoru fyrir líkt og glömpum. En þeir tímar eru löngu liðnir. Hversdagsleikinn hefur drepið allt sem var gott og fallegt. Á því hljóta vitaskuld að vera ýmsar skýringar, bæði þjóðfélagslegar og persónulegar, en höfundur forðast einfaldanir, tæpir fremur á en fullyrðir eða undirstrikar. Fellir heldur enga dóma, þau tvö eru, eftir því sem best verður ráðið, jafn sek eða jafn saklaus af því sem er að gerast. Þetta eru bara ósköp venjulegir, vel gerðir ungir krakkar, sem fara mjög ung að búa saman og taka á sig ábyrgð sem þau standa ekki undir. Án þess að verða þess vör sogast þau inn í ríkjandi tíðarástand, óheilbrigðan lífsmáta kynslóðar sinnar sem ber dauðann í sér. Þau eru ekki á nokkurn hátt það sem við, hin gæfusömu, leyfum okkur að kalla „ógæfufólk“. Samt er líf þeirra að hrynja í rústir og enginn sem getur bjargað því. Mikil listræn áhætta er tekin með því að tefla fram ungum og tiltölulega óreyndum leikurum í slíkum hlutverkum. En þau Snorri Engilbertsson og Elma Stefanía Ágústsdóttir komast vel frá þeirri raun. Leikur þeirra er ekki fullkominn; eflaust myndu reyndari leikararar, ríkari að mannþekkingu og með þroskaðri tækni, hafa náð að gæða ýmis smáatriði leiksins dýpri merkingu; það er ekki síst á því sem svona kammerleikir lifa. Smáatriðum sem, þegar best tekst til, opna sýn inn í heilan heim, handan orðanna. Því hér gerist það sem máli skiptir handan orðanna. En þau tvö eru góð efni, á réttum aldri, mynda fullkomlega trúverðugt par og – það sem mestu varðar – skilja þetta fólk og aðstæður þeirra. Afneitunin, gremjan, reiðin, afbrýðin, vanmátturinn, sorgin, sambandsleysið, viðleitnin til að byrja upp á nýtt sem alltaf mistekst, óttinn, einsemdin, vonleysið, grimmdin, heiftin, hatrið, og að lokum nakin örvæntingin; þau koma því öllu til skila. Og þau ná að halda athygli okkar fastri undir leikstjórn sem einkennist af óbrigðulli tilfinningu fyrir hrynjandi heildarinnar, er laus við hvers kyns ódýrar brellur og knýr í leikslokunum fram viðeigandi dramatískt ris. Þar reynir mest á Snorra sem sýndi þar bæði öryggi og styrk; það var í raun og veru afburða vel gert hjá honum. Leikmynd, sviðsbúnaður, ljós og hljóð, vega glæsilega salt á milli natúralismans og þeirrar leikrænu framandgervingar sem verkið er byggt á. Einfaldur húsbúnaður gefur skýra mynd af lífi ungs nútímafólks sem er að reyna að koma undir sig fótum. En svartgljáandi gólfið, sem speglar það sem er ofan á því, minnir á hyldýpin undir niðri. Þegar á allt er litið er vart hægt að segja annað en að höfundur jafnt sem starfsfólk leikhússins hafi hér unnið góðan sigur. Það verða gerðar kröfur til þeirra allra, eftir þetta.Niðurstaða:Áhrifamikil sýning um grimman veruleika sem okkur er öllum skylt að horfast í augu við. Gagnrýni Mest lesið Íslenskur leiklistarnemi upplifði óraunverulega stund í New York Lífið Galvaskar Gucci gellur á galakvöldi Tíska og hönnun Íbúðin gjörbreyttist eftir að hafa fært eldhúsið Lífið Sunneva nefndi son Jóhönnu Lífið Segist aldrei myndu deita Depp Lífið Tjáði sig óvænt um sína fyrrverandi Lífið Tveggja barna foreldrar eftir erfiða áhættumeðgöngu Lífið Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Tónlist Stjörnulífið: Hrekkjavaka og seiðandi kroppar Lífið Tanja Ýr og Ryan fengu að vita kynið á sjöttu viku Lífið Fleiri fréttir The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
LEIKLIST: Harmsaga Höfundur Mikael Torfason. Leikstjórn Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar Eva Signý Berger. Tónlist John Grant. Hljóðmynd Kristinn Gauti Einarsson. Lýsing Magnús Arnar Sigurðarson. Leikarar Elma Stefanía Ágústsdóttir og Snorri Engilbertsson. Dramatúrg Halldór Halldórsson. Sýnt í Kassa Þjóðleikhússins Sýning Þjóðleikhússins á Harmsögu Mikaels Torfasonar er verk ungra leikhúsmanna. Leikritið er fyrsta sviðsverk höfundar og leikstjórinn er einnig að vinna í fyrsta sinn í fullgildu atvinnuleikhúsi. Báðir leikendurnir eru nýútskrifaðir, hvorugur hefur tekist á við svo kröfuhart verkefni áður. Því er sérlega gleðilegt hversu hér hefur vel til tekist. Verkið sjálft á brýnt erindi við okkur og allir, sem að sýningunni koma, skila sínu með sóma. Kvöldstundin verður áhrifamikil og eftirminnileg. Þetta mætti oftar vera svona í Þjóðleikhúsinu. En sýningin gerir kröfur til áhorfenda. Framsetningin er óhefðbundin; okkur er ekki boðið upp á sögu með upphafi, miðju og endi í þessum klassíska skilningi. Þarna er fyrst og fremst verið að lýsa ástandi og áhorfandanum verður í upphafi ljóst í hvaða átt stefnir. Samband ungu hjónanna, sem leikurinn fjallar um, er komið í þrot. Þau búa í blokkaríbúð í einu af nýju Kópavogshverfunum með tveimur börnum; hann er fluttur að heiman, farinn aftur til pabba og mömmu, en er þó ekki fluttur að heiman; þau vita hvorugt hvar þau standa. Vítahringurinn er sýndur með því að sama atriðið er endurtekið með tilbrigðum: það á að fara að halda upp á afmæli litlu dóttur þeirra, hún er að undirbúa það, komin í glas þegar hann birtist, áður en varði er allt komið í háaloft. Það er aldrei hægt að ræða neitt og áfengið eitrar öll samskipti. Þetta gerist snöggt og markar aðferð leiksins: stutt, jafnvel örstutt brotakennd atriði sem flakka fram og aftur í tíma og rúmi. Minningum frá gamla góða tímanum, þegar ástin brann og framtíðin var böðuð rósrauðri birtu drauma og vona, bregður öðru hvoru fyrir líkt og glömpum. En þeir tímar eru löngu liðnir. Hversdagsleikinn hefur drepið allt sem var gott og fallegt. Á því hljóta vitaskuld að vera ýmsar skýringar, bæði þjóðfélagslegar og persónulegar, en höfundur forðast einfaldanir, tæpir fremur á en fullyrðir eða undirstrikar. Fellir heldur enga dóma, þau tvö eru, eftir því sem best verður ráðið, jafn sek eða jafn saklaus af því sem er að gerast. Þetta eru bara ósköp venjulegir, vel gerðir ungir krakkar, sem fara mjög ung að búa saman og taka á sig ábyrgð sem þau standa ekki undir. Án þess að verða þess vör sogast þau inn í ríkjandi tíðarástand, óheilbrigðan lífsmáta kynslóðar sinnar sem ber dauðann í sér. Þau eru ekki á nokkurn hátt það sem við, hin gæfusömu, leyfum okkur að kalla „ógæfufólk“. Samt er líf þeirra að hrynja í rústir og enginn sem getur bjargað því. Mikil listræn áhætta er tekin með því að tefla fram ungum og tiltölulega óreyndum leikurum í slíkum hlutverkum. En þau Snorri Engilbertsson og Elma Stefanía Ágústsdóttir komast vel frá þeirri raun. Leikur þeirra er ekki fullkominn; eflaust myndu reyndari leikararar, ríkari að mannþekkingu og með þroskaðri tækni, hafa náð að gæða ýmis smáatriði leiksins dýpri merkingu; það er ekki síst á því sem svona kammerleikir lifa. Smáatriðum sem, þegar best tekst til, opna sýn inn í heilan heim, handan orðanna. Því hér gerist það sem máli skiptir handan orðanna. En þau tvö eru góð efni, á réttum aldri, mynda fullkomlega trúverðugt par og – það sem mestu varðar – skilja þetta fólk og aðstæður þeirra. Afneitunin, gremjan, reiðin, afbrýðin, vanmátturinn, sorgin, sambandsleysið, viðleitnin til að byrja upp á nýtt sem alltaf mistekst, óttinn, einsemdin, vonleysið, grimmdin, heiftin, hatrið, og að lokum nakin örvæntingin; þau koma því öllu til skila. Og þau ná að halda athygli okkar fastri undir leikstjórn sem einkennist af óbrigðulli tilfinningu fyrir hrynjandi heildarinnar, er laus við hvers kyns ódýrar brellur og knýr í leikslokunum fram viðeigandi dramatískt ris. Þar reynir mest á Snorra sem sýndi þar bæði öryggi og styrk; það var í raun og veru afburða vel gert hjá honum. Leikmynd, sviðsbúnaður, ljós og hljóð, vega glæsilega salt á milli natúralismans og þeirrar leikrænu framandgervingar sem verkið er byggt á. Einfaldur húsbúnaður gefur skýra mynd af lífi ungs nútímafólks sem er að reyna að koma undir sig fótum. En svartgljáandi gólfið, sem speglar það sem er ofan á því, minnir á hyldýpin undir niðri. Þegar á allt er litið er vart hægt að segja annað en að höfundur jafnt sem starfsfólk leikhússins hafi hér unnið góðan sigur. Það verða gerðar kröfur til þeirra allra, eftir þetta.Niðurstaða:Áhrifamikil sýning um grimman veruleika sem okkur er öllum skylt að horfast í augu við.
Gagnrýni Mest lesið Íslenskur leiklistarnemi upplifði óraunverulega stund í New York Lífið Galvaskar Gucci gellur á galakvöldi Tíska og hönnun Íbúðin gjörbreyttist eftir að hafa fært eldhúsið Lífið Sunneva nefndi son Jóhönnu Lífið Segist aldrei myndu deita Depp Lífið Tjáði sig óvænt um sína fyrrverandi Lífið Tveggja barna foreldrar eftir erfiða áhættumeðgöngu Lífið Segja aðra kaupa gervispilanir til að hafa áhrif á veðmál Tónlist Stjörnulífið: Hrekkjavaka og seiðandi kroppar Lífið Tanja Ýr og Ryan fengu að vita kynið á sjöttu viku Lífið Fleiri fréttir The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira