Menning

Mikill heiður fyrir mig sem listamann

Ása Ottesen skrifar
Listamaðurinn Davíð Örn Halldórsson hlaut hinn virta Garnegie styrk í ár.
Listamaðurinn Davíð Örn Halldórsson hlaut hinn virta Garnegie styrk í ár. FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL
„Það er rosalegur sigur fyrir mig að fá svona flott og virt verðlaun, þarna er ég kominn í hóp efnilegra listamanna,“ segir myndlistarmaðurinn, Davíð Örn Halldórsson, sem hlaut nýverið hin virta Garnegie styrk.

Þetta er í ellefta sinn sem Carnegie Art Award verðlaunin eru veitt og tóku sautján norrænir listamenn þátt í ár.

Veitt eru verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin og að auki er veittur styrkur til yngri listamanns upp á 100.000 sænskar krónur, eða tæplega tvær milljónir íslenska króna.

„Ég fékk styrkinn sem er veittur ungum og efnilegum listamönnum og fer í framhaldi af því til Stokkhólms á opnun sýningarinnar Carnegie Art Award 2014 í Konstakademien,“ útskýrir Davíð Örn, sem útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002 og hefur síðan þá haldið fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis.

„Sýningin í Konstakademien mun standa í eitt til tvö ár og og veita mér tækifæri til þess að sýna á fleiri listasöfnum í evrópu og eflast opna einhverjar dyr fyrir mig í framtíðinni.“

Davíð Örn sýnir fimm verk á sýningunni og hafa þau meðal annars skírskotun til popplistar, vegglistar og listasögu. „Ég nota blandaða tækni þar sem ég mála og spreyja á viðarplötur með iðnaðarmálningu og tússlitum. Þetta er ekki hefðbundin tækni en ekkert of skrítinn heldur.“

Það er í nógu að snúast hjá Davíð Erni um þessar mundir, en í október tekur hann þátt í samsýningu í Artíma Gallerí í Reykjavík og síðar í Leipzig auk þess sem hann undirbýr einkasýningu í Gallerí Þoku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.