Körfubolti

Viljum ekki koma heim með tvo ósigra á bakinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson er mikilvægur fyrir íslenska liðið.
Haukur Helgi Pálsson er mikilvægur fyrir íslenska liðið. Mynd/Valli
Íslenska körfuboltalandsliðið mætir Rúmeníu í dag í öðrum leik sínum í undankeppni EM 2015 en strákarnir eiga harma að hefna eftir illa útreið á móti Búlgaríu.

Haukur Helgi Pálsson fékk lítið að vera með í Búlgaríuleiknum vegna villuvandræða. „Það er svekkjandi fyrir mig að geta ekki hjálpað liðinu meira. Ég lendi snemma í villuvandræðum og má ekki gera það núna. Núna verð ég bara að passa mig,“ segir Haukur Helgi, sem er lykilmaður í íslenska liðinu og þá sérstaklega varnarlega.

„Ég er að reyna að berjast þarna undir í stöðu sem ég á ekki að vera að spila. Við erum litlir þannig að maður tekst bara á við þetta," segir Haukur Helgi ákveðinn og það er ekkert annað en sigur á dagskránni í dag.

„Það er klárt mál. Við þurfum að sýna okkar rétta andlit og spila eins og við höfum verið að gera upp á síðkastið. Við viljum ekki koma heim með tvo ósigra á bakinu,“ sagði Haukur, sem býst við spennandi leik. Hann er ekki búinn að afskrifa það að komast áfram.

„Það er alltaf möguleiki og við þurfum bara einbeita okkur að því að vinna þennan leik. Við verðum síðan bara að vona að Búlgarar misstígi sig þegar Rúmenarnir koma í heimsókn til þeirra. Þá veit maður aldrei hvað getur gerst. Við þurfum bara að vinna okkar leiki og það er ekkert meira sem við getum gert.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×