Fótbolti

EM í uppnámi hjá landsliðsmarkverði Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þóra Björg stefnir á að ná Evrópumótinu í Svíþjóð.
Þóra Björg stefnir á að ná Evrópumótinu í Svíþjóð. Fréttablaðið/Stefán
Enn bættist á meiðslalista íslenska kvennalandsliðsins í gærkvöldi. Þóra Björg Helgadóttir fór meidd af velli undir lok leiks í 2-2 jafntefli LdB Malmö gegn Tyresö í toppslagnum í Svíþjóð.

„Ég er tognuð aftan í læri,“ segir Þóra en leikurinn var sá síðasti í deildinni fram yfir Evrópumótið í Svíþjóð sem hefst 10. júlí. „Ég var að reyna að kasta langt út, þurfti að stoppa mig og setti fótinn of langt út.“

Hún tekur undir að tímasetningin á meiðslunum sé slæm. Hún gefur þó ekki upp von um að ná Evrópumótinu.

„Ég ætla ekki að gefast upp enn þá. Ég get gengið þótt ég sé aðeins hölt svo það eru jákvæð merki,“ segir Þóra. Hún hafi fengið nokkuð jákvæð viðbrögð frá læknum sænska liðsins og landsliðsins.

„Þannig að við erum ekkert svartsýn,“ segir markvörðurinn sem missir þó af æfingaleiknum gegn Dönum 20. júní.

Þóra hefur sloppið vel við meiðsli á löngum ferli. „Ég hef aldrei áður tognað, hvorki aftan í læri né annars staðar. Ég vissi samt hvað hefði gerst um leið og það gerðist.“

Þóra sýndi frábær tilþrif í marki Malmö skömmu áður en hún fór meidd af velli. Tilþrifin má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×