Skoðun

Lánaleiðréttlæti

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Íslenzka ríkið er umsvifamikið á lánamarkaði í landinu eins og fram kom í úttekt í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, í gær. Þegar horft er á útlán í heild eru opinberir lánasjóðir auk Landsbankans, sem er að stærstum hluta í eigu ríkisins, með um 39 prósent af lánamarkaðnum.

Ef hins vegar er horft á lán til einstaklinga eingöngu er hlutur lánastofnana í eigu okkar skattgreiðenda miklu hærri, eða 64 prósent. Þar vega húsnæðis- og námslán þyngst. Íbúðalánasjóður er með tæplega 60% hlutdeild á fasteignalánamarkaðnum og lífeyrissjóðirnir okkar um 15% til viðbótar.

Þessar tölur þarf fólk að hafa í huga þegar það hlustar á loforðaflaum stjórnmálamanna fyrir komandi kosningar um lækkun eða „leiðréttingu" á skuldum almennings.

Það þarf að minnsta kosti að spyrja stjórnmálamennina sem veifa slíkum gylliboðum hvernig eigi að fara að því að láta lánastofnanir í eigu okkar skattgreiðenda skrifa niður allt að 20% af eignum sínum, útlánunum, án þess að það kosti eigendurna, skattgreiðendurna, krónu.

Svo mikið er víst að ekki er hægt að fjármagna stórfellda lánalækkun hjá bönkum og sjóðum í opinberri eigu með því að svíða „vogunarsjóði" – sem er ljóta orðið yfir erlenda kröfuhafa í þrotabú föllnu bankanna. Þeir eru reyndar ekki allir vogunarsjóðir.

Í tilviki Íbúðalánasjóðs eru kröfuhafarnir aðallega innlendir lífeyrissjóðir, sem eru í eigu sama fólksins; almennings í landinu, skattgreiðendanna og lántakendanna. Ef þeir eiga að bera tapið kemur það niður á lífeyri þeirra gömlu og veiku og fjárhagslegu öryggi okkar hinna í framtíðinni. Ef þvinga ætti lífeyrissjóðina til að skrifa niður sín útistandandi lán til einstaklinga hefði það sömu afleiðingar.

Hugtökin réttlæti og ranglæti koma stundum við sögu í umræðunni um „leiðréttingu" skulda. Auðvitað finnst mörgum ranglátt að lánin hafi snarhækkað hjá fólki við hrun krónunnar. Skilningurinn á því að „leiðréttingin" á hækkuninni hljóti alltaf að kosta einhvern eitthvað fylgir hins vegar ekki alltaf réttlætiskenndinni.

Það má spyrja hvort meira réttlæti sé í því fólgið að byrðum þeirra sem glíma við stökkbreytt lán sé velt yfir á til dæmis fólk sem nálgast starfslok og á húsnæðið sitt skuldlaust – hugsanlega búið að borga niður margar „stökkbreytingar" í formi hækkana lána eftir gengisfellingar og verðbólguskot – annaðhvort í formi hærri skatta eða skertra lífeyrisgreiðslna, nema hvort tveggja sé. Það má líka spyrja hvort það sé réttlátt að sá sem tók litla áhættu, lítið lán og keypti viðráðanlega eign borgi fyrir þann sem tók mikla áhættu og hátt lán. Enn má bæta við hvort það sé eitthvert réttlæti í því að sá fyrrnefndi verði skattlagður til að hjálpa hinum, jafnvel þótt sá síðarnefndi sé með hærri tekjur.

Þannig má halda áfram að velta fyrir sér réttlæti og ranglæti í þessum efnum en lykilspurningin er þó þessi: Er eitthvert réttlæti í því að aðrir séu látnir borga lán en þeir sem tóku þau?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×