Fótbolti

Arsene Wenger í miklum vígahug

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Wenger lét blaðamenn heyra það í gær.nordicphotos/getty
Wenger lét blaðamenn heyra það í gær.nordicphotos/getty
Sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu halda áfram í kvöld er fram fara tveir leikir. Porto tekur á móti Malaga og Arsenal fær Bayern München í heimsókn. Þetta eru fyrri leikir liðanna í sextán liða úrslitunum.

Það var vígahugur í Arsene Wenger, stjóra Arsenal, á blaðamannafundi í gær. Hann hefur mátt þola mikla gagnrýni í vetur og var harðlega gagnrýndur aftur um helgina er Arsenal lauk keppni í bikarnum með tapi gegn Blackburn. Stjórinn franski er farinn að láta blaðamenn pirra sig.

„Menn segja að ég taki bikarinn ekki alvarlega. Ég hef unnið enska bikarinn fjórum sinnum. Hver hefur unnið oftar?" sagði Wenger reiður út í fjölmiðlamenn.

„Það er alls konar innihaldslaus gagnrýni í gangi sem erfitt er að sætta sig við. Það er nóg til af sérfræðingum að tjá sig en þeir hafa ekki endilega rétt fyrir sér."

Arsenal hefur ekki unnið titil í átta ár undir stjórn Wengers og Meistaradeildin er eina keppnin þar sem Arsenal á möguleika á titli í ár.

„Maður tekur þátt í keppnum til þess að vinna þær. Á einhverju stigi þarf maður að mæta virkilega sterku liði. Ef ég á að taka eitthvað mark á ykkur þá erum við ekki líklegir til þess að ná árangri," sagði Wenger sem ætlar að þagga niður í efasemdarmönnum í kvöld.

„Ég treysti gæðunum í okkar liði. Ég treysti liðsandanum og andlega styrknum. Þannig að við sjáumst á leiknum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×