Erlent

Sá Pistorius bera blóðugan líkamann niður tröppurnar

Oscar Pistorius Pistorius var leiddur fyrir dómara á föstudag. NordicPhotos/AFP
Oscar Pistorius Pistorius var leiddur fyrir dómara á föstudag. NordicPhotos/AFP
Myndin af morðinu á Reeva Steenkamp, kærustu suðurafríska Ólympíuhlauparans Oscars Pistorius er að skýrast. Steenkamp var á föstudag skotin á heimili Pistorius sem hefur verið ákærður fyrir morð á henni. Nágrannar heyrðu öskur úr húsi Pistorius áður en skothvellir glumdu um götuna. Pistorius hefur hins vegar sjálfur sagt lögreglu að hann hafi heyrt hljóð inni á baðherberg, náð í skammbyssu og skotið í gegnum hurð. Hann neitar staðfastlega að hafa myrt Steenkamp af ásettu ráði. Í gær bárust fregnir af því að lögreglan hefði fundið blóðuga krikketkylfu á heimilinu. Kannar hún nú hvort Steenkamp hafi verið lamin með kylfunni en hauskúpa hennar var kramin þegar bráðaliðar mættu á staðinn. Þá hefur lögregla gefið í skyn að skýringar Pistorius á verknaðinum standist ekki enda hafi Steenkamp verið í náttkjól þegar hún var skotin. Grunar lögreglu að Steenkamp hafi fyrst verið skotin í svefnherbergi þeirra, því næst falið sig inni á baðherbergi og verið skotin þrisvar sinnum þar. Vitni sem Pistorius hringdi í eftir skotárásina sá Pistorius bera blóðugan líkama hennar niður tröppur á heimili þeirra. Segir vitnið að Pistorius hafi verið í miklu uppnámi og að þau hafi saman reynt að stöðva blæðinguna úr líkama hennar en án árangurs. Pistorius, sem er fótalaus, hleypur á gervifótum frá Össuri og hefur verið áberandi í kynningarefni frá fyrirtækinu. Sigurborg Arnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Össurar, vill ekkert segja til um hvort samstarfinu við Pistorius verður fram haldið. Fyrirtækið vill sjá hvernig málið þróast áður en það bregst frekar við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×