Innlent

Óvissa í flugvallarmálinu: Björn Blöndal furðar sig á ákvörðun Alþingis

Höskuldur Kári Schram skrifar
Björn Blöndal aðstoðarmaður borgarstjóra og oddviti Bjartrar framtíðar í borginni segir að það komi á óvart að fjárlaganefnd Alþingis hafi ekki afgreitt tillögu sem heimilar ráðherra að selja borginni land í Vatnsmýrinni. Hann segir of snemmt að spá fyrir um hvort þetta muni hafa áhrif á fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu.

Heimild sem Alþingi veitti á gildandi fjárlögum til að selja Reykjavíborg flugvallarsvæði í Skerjafirði rennur út um áramótin. Samþykkt Alþingis þarf til að framlengja þessari heimild en slík tillaga var ekki afgreidd á fundi fjárlaganefndar í gær.

Þetta er á skjön við það samkomulag sem ríkisstjórnin gerði við borgaryfirvöld í október en samkvæmt því að á að loka minnstu flugbraut flugvallarins til að Reykjavíkurborg geti hafið uppbyggingu íbúðabyggðar í Skerjafirði.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis sagðist í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær vera ánægð með þessa niðurstöðu. „Það þýðir ekki að ganga svona fram í andstöðu við þjóðina, eins og núverandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hefur gert. Það endar náttúrlega bara með slysi, eins og þessu,” segir Vigdís.

Björn Blöndal aðstoðarmaður borgarstjóra og oddviti Bjartrar framtíðar í borginni segir að þessi ákvörðun komi á óvart. „Við erum að skoða hvað þetta þýðir ef þetta verður niðurstaðan,“ segir Björn.

Hann gerir ráð fyrir því að borgin muni funda með innanríkisráðherra vegna málsins. „Það kemur okkur svolítið á óvart að menn skuli ekki standa við það sem talað var um,“ segir Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×