Fótbolti

„Ummæli Zlatan sorgleg og leiðinleg“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Zlatan Ibrahimovic og Theresa Sjögran.
Zlatan Ibrahimovic og Theresa Sjögran. Mynd/Heimasíða sænska knattspyrnusambandsins
Pia Sundhage, þjálfari sænska kvennalandsliðsins í kanttspyrnu, er ósátt við ummæli sem Zlatan Ibrahimovic lét falla í viðtali við Expressen á Jóladag.

Forsaga málsins er sú að Anders Svensson fékk bíl að gjöf frá sænska knattspyrnusambandinu fyrir að meta leikjamet karlalandsliðsins. Theresa Sjögran, leikjahæsti leikmaður kvennalandsliðsins, hafði ekki fengið neina gjöf af slíkri stærðargráðu er hún bætti kvennametið.

„Hvernig í ósköpunum geturðu borið saman karlana og konurnar? Það er gjörsamlega ómögulegt. Ég get áritað reiðhjól sem konurnar geta fengið og verið sáttar með,“ sagði Zlatan meðal annars í viðtalinu við Expressen.

Ummæli Zlatan hafa verið gagnrýnd töluvert í heimalandinu en einnig af formanni kvennanefndar Knattspyrnusambands Evrópu. Zlatan sagði einnig að hann væri þreyttur á því að í útlöndum væri hann borin saman við Messi og Ronaldo á meðan Svíar bæru hann saman við bestu knattspyrnukonur Svía.

„Það er sorglegt og leiðinlegt þegar fyrirliði karlalandsliðsins lætur slík orð falla. Það sýnir glögglega brotalamir í hugsunarhætti í karlafótboltanum,“ segir Sundhage í viðtali við SVT Sport.

Miðvörður sænska landsliðsins, Nilla Fischer, tjáði sig á Twitter. Sagði hún ummælin þau kjánalegustu sem hún hefði nokkru sinni lesið.

Þá sagði Frida Östberg, knattspyrnusérfræðingur á SVT Sport, óskiljanlegt að Zlatan teldi sér misboðið í samanburði við knattspyrnukonur á borð við Lottu Schelin og Sjögran.

Sjögran segist vel meðvituð um að karlalandsliðið fái mun meiri tekjur en kvennalandsliðið. Málið snúist hins vegar líka um gagnkvæma virðingu enda séu allir að gera það sama, spila fótbolta.

„Einn daginn segir hann okkur að við séum frábærar. Næsta dag vill hann árita reiðhjól fyrir okkur. Ég hef ekki hugmynd hvers vegna hann er svona pirraður,“ sagði Sjögran við Sydsvenskan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×