Innlent

Vonast eftir þjóðarsátt um fjárlög ríkisstjórnarinnar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis vonast eftir þjóðarsátt um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Hún gagnrýndi harkalega niðurskurðaraðgerðir síðustu ríkisstjórnar í heilbrigðismálum.

Vigdís mælti fyrir nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar þegar önnur umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á Alþingi í dag.

„Segja má að forgangsröðun sú sem birtist í nefndaráliti meirihlutans sé þjóðarsátt um fjárlög ársins 2014. Við reisum við heilbrigðiskerfið sem holað var að innan í tíð síðustu ríkisstjórnar jafnt á Reykjavíkursvæðinu sem og á landsbyggðinni. Við forgangsröðum í þágu fólksins í landinu öllu í grunnþjónustunni og þá sleppum við óþarfanum sem sumir kalla gæluverkefni fyrri ríkisstjórnar. Við náum að snúa af braut hömlulausra útgjalda í ríkisrekstri í það að skila hallalausum fjárlögum og meira að segja að skila örlitlum afgangi,“ sagði Vigdís.

Hún vonast eftir breiðri sátt um frumvarpið.

„Það er von okkar að um þessi fjárlög skapist góð samstaða og litið verði á þau sem undirbúning að því að snúa við óheillaþróun í rekstri ríkissjóðs og hefja von bráðar niðurgreiðslu á ríkisskuldum sem er brýn nauðsyn svo Íslendingum farnist vel í framtíðinni og landið haldið efnahagslegu sjálfstæðis,“ sagði Vigdís.

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi velferðarráðherra, sagði að gagnrýni Vigdísar væri ómálefnaleg og ekki til þess fallin að ýta undir málefnalega umræðu um fjárlögin.

„Ég verð að viðurkenna að maður bregður við þegar lagt er út í faglega og málefnalega umræðu sem hér á eftir að standa næstu daga með orðunum að hér hafi orðið hömlulaus útgjöld á síðustu árum. Hömlulaus útgjöld. Þar sem búið er að skera niður frá því að vera með 14% halla á landsframleiðslu niður í 1%. Við  erum að tala um að menn hafi tekið við villandi búi hvað sem það þýðir. Að tekjuáætlun á þessu ári hafi verið byggð á lofti, innihaldslaus með öllu eins og hér er sagt. Ég verð að biðjast undan svona málflutningi í sambandi við fjárlög,“ sagði Guðbjartur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×