Körfubolti

Hamarskonur hefndu fyrir bikartapið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Di'Amber Johnson var illviðráðanleg í seinni hálfleiknum.
Di'Amber Johnson var illviðráðanleg í seinni hálfleiknum. Mynd/Pjetur
Hamarskonur styrktu stöðu sína í 4. sæti Dominos-deildar kvenna í körfubolta eftir átta stiga sigur á Val, 72-64, en bæði lið voru með tíu stig fyrir leikinn.

Valur sló Hamar út úr bikarnum á dögunum en Hamarskonum tókst að hefna fyrir það í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld.

Hamar hefur nú unnið báða deildarleiki sína á móti Val í vetur og það gæti komið sér vel ef innbyrðisviðureignir munu ráða röð liðanna í lokin.

Di'Amber Johnson skoraði 23 af 25 stigum sínum í síðari hálfleik en Marín Laufey Davíðsdóttir var með 22 stig og Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 11 stig.

Kristín Sigurjónsdóttir skoraði 24 stig fyrir Val, Guðbjörg Sverrisdóttir var með 16 stig og Jaleesa Butler bætti við 13 stigum og 12 fráköstum.

Valsliðið byrjaði leikinn frábærlega og var komið í 17-7 eftir rúmlega sex mínútna leik. Hamar náði að minnka muninn í fimm stig, 14-19, fyrir lok fyrsta leikhlutans.

Hamar skoraði 17 af fyrstu 19 stigum annars leikhluta og komst tíu stigum yfir, 31-21. Marín Laufey Davíðsdóttir og Fanney Lind Guðmundsdóttir skoruðu báðar sex stig á þessum frábæra kafla Hamarsliðsins.

Hamar var fimm stigum yfir í hálfleik, 37-32, en Valskonur tóku aftur frumkvæðið með því að vinna fyrstu átta mínútur seinni hálfleiksins, 17-6. Staðan var síðan 51-51 fyrir lokaleikhlutann.

Hamar náði fimm stiga forskoti í upphafi fjórða leikhlutans og hélt frumkvæðinu síðan út leikinn.



Hamar-Valur 72-64 (14-19, 23-13, 14-19, 21-13)

Hamar: Di'Amber Johnson 25/6 fráköst/7 stoðsendingar, Marín Laufey Davíðsdóttir 22/8 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir 11/6 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir 9/5 stoðsendingar, Kristrún Rut Antonsdóttir 3, Regína Ösp Guðmundsdóttir 2.

Valur: Kristrún Sigurjónsdóttir 24/4 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 16/7 fráköst, Jaleesa Butler 13/12 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 5/10 fráköst, Rut Herner Konráðsdóttir 2, Þórunn Bjarnadóttir 2, Hallveig Jónsdóttir 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×