Fótbolti

Ancelotti: Di Maria verður ekki seldur

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
mynd/nordic photos/getty
Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri spænska stórliðsins Real Madrid segir ekki koma til greina að selja Argentínumanninn Angel Di Maria sem hefur verið orðaður við Mónakó. Hann hefur einnig verið orðaður við stórlið í ensku úrvalsdeildinni.

Fregnir frá Santiago Bernabeu herma að Di Maria sé ósáttur við hlutverk sitt hjá Real Madrid og hann vilji komast til liðs þar sem  hæfileikar hans fá frekar á njóta sín. Di Maria telur sig þurfa að spila meira til að eiga möguleika á að leika fyrir Argentínu á Heimsmeistaramótinu í Brasilíu næsta sumar.

Ancelotti sagði eftir jafntefli Real Madrid við Olimpic Xativa í spænska bikarnum að ekki komi til greina að selja hinn 25 ára gamla kantmann liðsins.

„Hann hefur ekki talað um framtíð sína. Hann er ánægður hér og fer ekki frá Real Madrid,“ sagði Ancelotti sem horfði upp á lið sitt mistakast að skora án Cristiano Ronaldo og Gareth Bale í gær.

Því hefur verið haldið fram að Real Madrid þurfi að selja leikmanninn til að bæta fjárhagsstöðu sína eftir kaupinn á Bale í sumar og hafa Liverpool, Arsenal og Manchester United verið nefnd sem líklegir áfangastaðir auk Mónakó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×