Fótbolti

Real Madrid fékk að æfa á Parken en ekki FCK

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grasið á Parken í dag.
Grasið á Parken í dag. Mynd/Twitter
Þjálfari FC Kaupmannahafnar líkir grasvellinum á Parken í Kaupmannahöfn við kartöflugarð. Liðið mætir Real Madrid í Meistaradeildinni annað kvöld.

Eftirlitsmaður á vegum UEFA óskaði eftir því í dag að leikmenn FC Kaupmannahafnar æfðu ekki á heimavelli sínum í dag vegna slæms ástands vallarins.

FCK mætir Real Madrid í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu annað kvöld. Spænska liðið hefur þegar tryggt sér sigur í riðlinum en FCK getur mögulega náð þriðja sæti riðilsins með sigri. Þriðja sætið gefur þátttökurétt í 32-liða úrslitum Evrópudeildar eftir áramót.

„Svona er þetta þegar stóru strákarnir kíkja í heimsókn. Þá er manni kastað út úr eigin húsi,“ sagði Ståle Solbakken, þjálfari FCK, við NRK. Real Madrid fékk að æfa á vellinum í kvöld ólíkt danska liðinu. FCK æfði á æfingasvæði sínu í Frederiksberg þess í stað.

„Við spiluðum á Parken um helgina þannig að þetta er ekkert stórmál. Fyrst UEFA vill gera þetta svona eyðum við ekki orku í að spá í þetta.“

Norðmaðurinn segir að heilt yfir ætti slæmt ástand á Parken að geta hjálpað sínum mönnum.

„Real er ekki vant því að spila á velli sem þessum og slæmar aðstæður munu hafa meiri áhrif á þeirra spil en okkar. Þeir verða vafalítið með yfirburði á morgun en kannski minni en vanalega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×