Innlent

Segir að stjórnarandstaðan hafi ítrekað farið með rangt mál

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að skuldatillögur ríkisstjórnarinnar muni uppfylla kosningaloforð beggja stjórnarflokka.  Hann segir að tillögurnar séu nú þegar búnar að fara í gegnum álagspróf.

Rætt var við Sigmund Davíð í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgunni. Sigmundur segir að skuldatillögurnar verði kynntar í þessari viku. Um sé að ræða blandaða leið. Annars vegar hina svokölluðu skattaleið og hins vegar skuldaniðurfellingu.  „Þegar þessar tillögur verða kynntar þá munu þær uppfylla öll okkar loforð fyrir síðustu kosningar og loforð Sjálfstæðisflokksins líka,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur segir að kynningin á skuldatillögunum verði umfangsmikil. „Við teflum þarna fram heildarpakka sem er búinn að fara í gegnum álagspróf,“ sagði Sigmundur.

Á miðstjórnarfundi framsóknarmanna á Selfossi um síðustu helgi skaut Sigmundur föstum skotum á stjórnarandstöðuna og sagði að hún muni ekki hika við að segja ósatt til að gagnrýna skuldatillögur ríkisstjórnarinnar. Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa furðað sig á þessari yfirlýsingu. Sigmundur gefur lítið fyrir þá gagnrýni.  „Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem menn láta eins og þeir séu voða hneykslaðir og undrandi á því að vera gagnrýndir, “ sagði Sigmundur. „Það er ákveðinn hópur sem getur ekki hugsað sér að þetta gerist. Að dæmið verði klárað. Líklega hafa úrslit kosninganna áhrif þar á en hvað eftir annað hafa þeir farið með rangt mál,“ sagði Sigmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×