Fótbolti

Chelsea átti ekki skot á markið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho, stjóri Chelsea, kennir þreytu um að hans menn hafi tapað fyrir Basel, 1-0, í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Chelsea komst engu að síður áfram í 16-liða úrslit keppninnar vegna hagstæðra úrslita í hinum leik kvöldsins í riðlinum en ein umferð er eftir af riðlakeppninni.

Enska liðið átti eitt skot skráð í leiknum og rataði það ekki á markið. Basel var mun hættulegri aðilinn og skoraði Mohamed Salah sigurmark leiksins á 87. mínútu.

„Þetta var léleg frammistaða og tapið sanngjarnt,“ sagði Mourinho eftir leikinn í kvöld. „Það eina jákvæða er að við komumst áfram í 16-liða úrslitin.“

„Nú verðum við að ná góðum úrslitum [gegn Steaua Búkarest] á heimavelli í lokaumferðinni til að tryggja okkur efsta sæti riðilsins.“

Honum líkaði ekki við neitt sem hann sá hjá sínum mönnum í kvöld, strax frá fyrstu mínútu.

„Við gerðum varnarmistök um leið og við fengum boltann í fyrsta sinn í leiknum. Við sýndum smá stöðugleika í seinni hálfleik en mér fannst liðið vera þreytt.“

„Ég held að landsleikirnir hafi tekið sinn toll sem og leikurinn gegn West Ham um helgina. Ég hefði átt að gera meiri breytingar á liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×