Fótbolti

Bayern bætti met með tíunda sigrinum í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bayern München er öruggt með toppsæti í D-riðils Meistaradeildar Evrópu eftir 3-1 sigur á CSKA Moskvu í snjókomunni í Rússlandi í dag.

Þetta var fyrsti leikurinn af átta í Meistaradeildinni en hinir hefjast allir klukkan 19.45. Manchester City tekur á móti Viktoria Plzen í hinum leik riðilsins en enska liðið er þegar öruggt með annað sæti riðilsins og þar með sæti í 16-liða úrslitunum.

Arjen Robben, Mario Götze og Thomas Müller skoruðu mörk Þjóðverjanna í dag en Bayern komst í 2-0 forystu í leiknum. Keisuke Honda minnkaði þá muninn fyrir heimamenn úr vítaspyrnu eftir að hafa farið illa með tvö dauðafæri skömmu áður.

Müller innsiglaði svo sigur Þjóðverjanna með marki á 65. mínútu en bæði lið fengu færi til að skora síðar í leiknum.

Þetta var tíundi sigur Bayern München, ríkjandi Evrópumeistara, í röð í Meistaradeildinni en ekkert lið hefur afrekað það fyrr.

Þetta var enn fremur sjötti sigur Bayern í röð á útivelli en það er einnig met.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×