Fótbolti

Vidal sá um FCK

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arturo Vidal skoraði öll þrjú mörk Juventus í mikilvægum 3-1 sigri liðsins á FC Kaupmannahöfn í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Danirnir eru fyrir vikið úr leik í baráttunni um sæti í 16-liða úrslitunum.

Vidal, sem er landsliðsmaður frá Sile, kom Juventus yfir í fyrri hálfleik með marki úr vítaspyrnu en Olof Mellberg, fyrrum leikmaður Juventus, jafnaði metin fyrir Danina í upphafi þess síðari eftir undirbúning Ragnars Sigurðssonar.

Vidal tók þá aftur við keflinu og skoraði tvö mörk á tveggja mínútna kafla, það fyrra af vítapunktinum.

Ragnar Sigurðsson og Rúrik Gíslason léku báðir allan leikinn í liði FCK sem er nú með fjögur stig, rétt eins og Galatasaray sem tapaði fyrir Real Madrid á Spáni, 4-1.

Ragnar komst nálægt því að skora í leiknum í kvöld í stöðunni 1-0, skömmu áður en Mellberg jafnaði.

Galatasaray og Juventus mætast í lokaumferð riðlakeppninnar og verður það hreinn úrslitaleikur um annað sætið í riðlinum. Juventus dugir jafntefli til að komast áfram í 16-liða úrslitin.

FCK getur jafnað annað hvort liðið að stigum með sigri á Real Madrid í lokaumferðinni en verður aldrei ofar en í þriðja sæti, sem veitir þátttökurétt í Evrópudeild UEFA eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×