Fótbolti

Giggs: Hefðum getað skorað fleiri mörk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ryan Giggs, leikmaður Manchester United, segir að hraði leikmanna hafi nýst vel í 5-0 sigri liðsins á Bayer Leverkusen í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

„Ég held að hraðinn hafi skipt sköpum. Fyrsta markið er gott dæmi um það. Það var sönn ánægja að spila fyrir aftan okkar fremstu menn í dag,“ sagði Giggs við enska fjölmiðla eftir leikinn í kvöld.

„Við hefðum þess vegna getað skorað fleiri mörk. En það er frábær árangur að skora fimm mörk á hvaða útivelli sem er í Evrópu. Það var svo bónus að halda hreinu.“

David Moyes, stjóri United, var vitanlega hæstánægður með sigurinn en frammistaða liðsins var mögnuð í leiknum.

„Ég vil auðvitað sjá fleiri svona leiki með mínu liði en það er ýmislegt sem bendir til þess að þetta er á uppleið hjá okkur. Við höfum líka stundum sýnt snilli okkar.“

„En það er frábært að ná svo góðum úrslitum gegn jafn sterku liði á útivelli. Leverkusen er í öðru sæti þýsku deildarinnar og það segir mikið um frammistöðu okkar í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×