Sport

Tebow vonast eftir vinnu í sjónvarpinu

Tebow í leik með Jets.
Tebow í leik með Jets. vísir/getty
Tim Tebow virðist vera búinn að gefa upp vonina um að fá aftur vinnu í NFL-deildinni og er farinn að leita hófanna á nýjum stöðum.

Hann er búinn að ná sér í umboðsmann sem ætlar að hjálpa honum að komast að í sjónvarpi. Þá til þess að fjalla um leiki í bandaríska háskólaboltanum.

Fall Tebow frá árinu 2012 hefur verið hátt. Þá vann hann ótrúlegan sigur með Denver á Pittsburgh í úrslitakeppninni. Hann kom öllum á óvart með flottum leik og var talinn vera framtíðarmaður í deildinni.

Þá ákvað Denver að veðja á Peyton Manning og losaði sig við Tebow. Hann fór til NY Jets og annað eins fjölmiðlafár hafði ekki sést þar í borg lengi.

Ekki var vistin góð þar því hann sat á bekknum í New York nánast allt síðasta tímabil. Hann losnaði þaðan eftir tímabilið og var í æfingahópi New England fyrir núverandi tímabil. Hann komst svo ekki í lokahópinn.

Þrátt fyrir mikil meiðsli leikstjórnenda NFL-deildarinnar í vetur hefur ekkert lið þorað að veðja á Tebow. Skal því engan undra að þessi viðkunnalegi Guðsmaður sé farinn að horfa í nýjar áttir.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×