Fótbolti

Cristiano Ronaldo með þrennu í stórsigri Real

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Cristiano Ronaldo skoraði þrjú mörk og lagði upp eitt þegar Real Madrid vann 5-1 stórsigur á Real Sociedad í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Real er í þremur stigum á eftir toppliði Barcelona sem á leik inni á morgun.

Cristiano Ronaldo er því með þriggja marka forskot á Diego Costa og átta marka forskot á Lionel Messi í baráttunni um markakóngstitilinn á Spáni.

Real Madrid var komið í 4-0 eftir 36 mínútna leik en Cristiano Ronaldo skoraði fyrsta markið á 12. mínútu eftir sendingu Karim Benzema. Ronaldo lagði síðan upp mark fyrir Karim Benzema sex mínútum síðar..

Cristiano Ronaldo skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu á 26. mínútu eftir að boltinn fór í hendi varnarmanns Real Sociedad.

Sami Khedira skoraði fjórða markið á 36. mínútu eftir stoðsendingu Gareth Bale sem hefur þar með lagt upp fimm mörk í síðustu þremur deildarleikjum.

Antoine Griezmann minnkaði muninn á 61. mínútu en Cristiano Ronaldo innsiglaði þrennu sína og sigurinn með því að skora fimmta markið á 76. mínútu en það skoraði hann beint úr aukaspyrnu.

Cristiano Ronaldo hefur þar með skorað átta mörk í síðustu þremur deildarleikjum Real Madrid sem liðið hefur unnið með markatölunni 15-4. Ronaldo er alls með 16 mörk í 13 leikjum í spænsku deildinni á þessu tímabili.

Staðan í spænsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×