Fótbolti

Ronaldo með sína fjórðu þrennu á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo skoraði þrjú mörk fyrir Real Madrid í 5-1 sigri á Real Sociedad í spænsku úrvalsdeildinni í gær og hefur þar með náð átta marka forskoti á Lionel Messi í baráttunni um markakóngstitilinn á Spáni.

Cristiano Ronaldo hefur skorað 8 mörk í síðustu þremur deildarleikjum sínum og alls sextán mörk í þrettán deildarleikjum á leiktíðinni. Messi er "bara" með átta mörk en getur bætt úr því í dag.

Cristiano Ronaldo var þarna að skora sína 23. þrennu fyrir Real Madrid þar af hafa þrjár þeirra komið á þessu tímabili. Hann skoraði einnig eina þrennu fyrir portúgalska landsliðið í undankeppni HM.

Ronaldo hefur alls skoraði 24 mörk í 17 leikjum með Real Madrid í spænsku deildinni og Meistaradeildinni á tímabilinu.

Það er hægt að sjá myndir frá sigri Real Madrid í gær með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan.



Þrennur Cristiano Ronaldo tímabilið 2013-14:

1) 6. september með Portúgal í 4-2 sigri á Norður-Írlandi í undankeppni HM

2) 17. september með Real Madrid i 6-1 sigri á Galatasaray í Meistaradeildinni

3) 30. október með Real Madrid í 7-3 sigri á Sevilla í spænsku deildinni

4) 9.nóvember með Real Madrid í 5-1 sigri á Real Sociedad í spænsku deildinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×