Fótbolti

Barcelona náði ekki inn sigurmarkinu á San Siro

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/NordicPhotos/Getty
AC Milan og Barcelona gerðu 1-1 jafntefli í toppslag H-riðils Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld og eru Börsungar því áfram með tveggja stiga forskot á toppi riðilsins.

Barcelona var miklu meira með boltann að vanda og fékk nóg af færum í leiknum til þess að tryggja sér sigurinn en Marco Amelia stóð sig vel í marki AC Milan og Ítalarnir náðu í stig.

Robinho kom AC Milan í 1-0 strax á níundu mínútu. Markið kom eftir misheppnaða hreinsun Javier Mascherano. Robinho náði boltanum og komst í gegn eftir laglegt veggspil við Kaka. Skömmu áður hafði Sulley Muntari skorað fyrir AC Milan en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Lionel Messi jafnaði metin á 23. mínútu með dæmigerðu Messi-marki eftir að hafa fengið boltann frá Andrés Iniesta.

Alexis Sánchez fékk algjört dauðfæri sex mínútum fyrir hálfleik eftir glæsisendingu Xavi en lét Marco Amelia verja frá sér. Neymar átti síðan skot rétt framhjá á lokamínútu hálfleiksins.

Barcelona hélt áfram að skapa sér færi í seinni hálfleiknum og Adriano fékk algjört dauðafæri á 70. mínútu eftir undirbúning Lionel Messi.

Barcelona náði ekki að nýta sér yfirburðina eða góð færi og varð því að sætta sig við að fara bara heim með eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×