Fótbolti

Celtic refsaði grimmilega og Ajax er nánast úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Kolbeinn Sigþórsson og félagar í Ajax eru svo gott sem úr leik í Meistaradeildinni eftir 1-2 tap á útivelli á móti Celtic í kvöld. Kolbeinn var nálægt því að opna markareikning sinn í Meistaradeildinni en fyrsta Meistaradeildarmarkið lætur enn bíða eftir sér.

Ajax var síst lakara liðið í leiknum og fékk dauðafæri rétt áður en Celtic-liðið skoraði mörkin sín. Celtic hefur nú tveimur stigum meira en Ajax sem er á botni H-riðilsins með eitt stig af níu mögulegum.

Ajax endaði leikinn manni fleiri eftir að Celtic-maðurinn Nir Biton fékk beint rautt spjald á 88. mínútu og náði að minnka muninn á lokasekúndum leiksins.

Ajax var hættulegra liðið í fyrri hálfleiknum og Daninn Christian Poulsen átti skot í slá áður en heimamenn í Celtic komust yfir.

Anthony Stokes fiskaði víti á Stefano Denswil á lokamínútu fyrri hálfleiks og  James Forrest skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni og opnaði markareikning Celtic í Meistaradeildinni í ár.

Stuðningsmenn Ajax voru allt annað en sáttir með þetta víti enda eflaust enn í fersku minni ódyra vítaspyrnan sem AC Milan leikmaðurinn Mario Balotelli fékk á móti þeim í síðustu umferð.

Ajax fékk líka mjög gott færi skömmu áður en Beram Kayal kom Celtic í 2-0 en langskot hans fór af umræddum Stefano Denswil og í markið.

Kolbeinn Sigþórsson fékk algjör dauðafæri tveimur mínútum eftir annað markið en skot hans sleikti fjærstöngina.

Lasse Schöne minnkaði muninn í 2-1 á fjórðu mínútu í uppbótartíma en það kom alltof seint og Celtic-menn fögnuðu sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×