Fótbolti

Erfitt kvöld hjá Ragnari og Rúriki í Tyrklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gengur ekki vel hjá Íslendingaliðunum í Meistaradeildinni. Ajax er nánast úr leik eftir tap á móti Celtic í gær og í kvöld tapaði danska liðið FCK frá Kaupmannahöfn 3-1 á móti Galatasaray í Tyrklandi.

Lærisveinar Roberto Mancini í Galatasaray voru komnir í 3-0 í hálfleik en FCK náði að laga stöðuna með marki undir lok leiksins.

Íslensku landsliðsmennirnir Ragnar Sigurðsson og Rúrik Gíslason voru báðir í byrjunarliði FCK í leiknum en Rúrik var tekinn af velli í hálfleik.

Felipe Melo skoraði fyrsta markið á 9. mínútu eftir sendingu Dany Nounkeu og undirbúning Didier Drogba við hornfánann.

Wesley Sneijder bætti við öðru marki með laglegu skoti á 38. mínútu eftir sendingu frá Emmanuel Eboué og Eboué, fyrrum leikmaður Arsenal, lagði einnig upp þriðja markið fyrir Drogba í uppbótartíma fyrri hálfleiksins.

Didier Drogba skoraði þá á fjærstönginni eftir að Tyrkirnir höfðu yfirspilað leikmenn danska liðsins. Tyrkir náðu ekki að bæta við mörkum í seinni hálfleiknum en Claudemir minnkaði muninn fyrir FCK tveimur mínútum fyrir leikslok.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×