Fótbolti

Sundsvall fór létt með botnliðið | SönderjyskeE tapaði

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Jón Guðni er farinn að láta verulega til sín taka í Svíþjóð.
Jón Guðni er farinn að láta verulega til sín taka í Svíþjóð. MYND/PJETUR
Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn fyrir Sundsvall sem vann öruggan 4-0 sigur á Brage í sænsku 1. deildinni í fótbolta. Hallgrímur Jónasson var í liði SönderjyskE sem tapaði 2-0 fyrir Aab á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni.

Jón Guðni heldur sæti sínu í liði Sundsvall sem hefur nú leikið sjö leiki án taps en Rúnar Már Sigurjónsson sat allan tímann á bekknum.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Daniel Sliper Sundsvall yfir á þriðju mínútu seinni hálfleiks. Tíu mínútum síðar bætti Kevin Walker öðru marki við og fimm mínútum síðar skoraði hann annað mark sitt og gerði út um leikinn. Enn var þó tími fyrir Johan Eklund að skora fjórða markið en það kom á 83. mínútu.

Með sigrinum komst Sundsvall upp í annað sæti deildarinnar en liðið er tveimur stigum á eftir toppliði Falkenberg og tveimur stigum fyrir ofan Örebro sem á leik til góða síðar í dag.

Ekkert gengur hjá SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni en liðið tapaði fjórða leik sínum í röð í deildinni gegn Aab í dag.

Hallgrímur var allan tímann í vörn botnliðsins en hann gat ekki komið í veg fyrir að Florian Hart skoraði sjálfsmark á 70. mínútu. Tveimur mínútum síðar bætti Kasper Kusk við marki úr vítaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×