Fótbolti

Barcelona með sinn annan sigur á fjórum dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sánchez er sjóðandi heitur.
Alexis Sánchez er sjóðandi heitur. Mynd/NordicPhotos/Getty
Barcelona fylgdi eftir 2-1 sigri á Real Madrid á laugardaginn með því að vinna 3-0 útisigur á Celta de Vigo í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Barcelona er því komið með fjögurra stiga forskot á toppnum á Atlético Madrid en Atlético Madrid á reyndar leik inni á Börsunga.

Alexis Sánchez og Cesc Fàbregas skoruðu fyrir Barcelona í kvöld og þriðja markið var sjálfsmark eftir sláarskot Fàbregas. Neymar Jr. og Xavi fengu hvorugur að spila í kvöld.  Alexis Sánchez skoraði þegar hann fylgdi eftir skoti Fàbregas.

Lionel Messi tókst ekki að skora en átti mikinn þátt í tveimur markanna. Það þykja þó fréttir að þessi snjalli Argentínumaður er nú búinn að leiki þrjá deildarleiki í röð án þess að skora.

Tölfræði Messi í spænsku deildinni er svo sem ekki slæm á þessu tímabili eða 8 mörk og 4 stoðsendingar í 9 leikjum. Alexis Sánchez var hinsvegar að skora í sínum þriðja deildarleik í röð en Sílemaðurinn er með 6 mörk í 8 deildarleikjum á leiktíðinni.

Espanyol og Málaga gerðu markalaust jafntefli í hinum leik kvöldsins í spænsku deildinni og þá varð 1-1 jafntefli hjá Atalanta og Inter í ítalska boltanum í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×