Innlent

Yfir 900 manns ræða málefni Norðurskautsins í Hörpu

Samúel Karl Ólason skrifar

Ráðstefnan Arctic Circle fer fram í Hörpu um helgina og er það í fyrsta sinn sem ráðstefnan er haldin. Fleiri en 900 manns taka þátt á ráðstefnunni frá 40 löndum og er þetta stærsta samkoma af sinni tegund í heiminum til þessa.



Á ráðstefnunni verða ýmis málefni sem snúa að Norðurheimskautinu rædd eins og öryggi á norðurslóðum, auðlindir, hitastigsbreytingar, nýjar skipaleiðir, lagaumgjörð og margt fleira.



Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands mun taka fyrstur til máls og einnig munu verða sýnd myndbandsávörp frá Ban Ki-Moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, Hillary Rodham Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Prins Albert II frá Mónakó.



Á heimasíðu Arctic Circle segir að markmið ráðstefnunnar sé að koma á fót samræðugrundvelli og stofna sambönd til að takast á við þær hröðu breytingar sem eiga sér stað á Norðurskautinu. Ráðstefnunni lýkur á mánudagskvöldið, en hún verður haldin árlega í löndum sem liggja að norðurskautinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×