Fótbolti

Sara skoraði þegar hún og Þóra urðu sænskir meistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir urðu í dag sænskir meistarar í annað skiptið á þremur árum eftir að LdB Malmö vann 2-0 heimasigur á Umeå í næstsíðustu umferð sænsku kvennadeildarinnar. Malmö þurfti bara eitt stig til þess að tryggja sér titilinn en liðið er með sex stiga forskot á Tyresö þegar aðeins ein umferð er eftir.

Sara Björk skoraði annað mark Malmö í leiknum á 33. mínútu en það fyrra skoraði hollenska landsliðskonan Manon Melis á 20. mínútu leiksins. Sara skoraði markið sitt eftir sendingu frá Linu Nilsson. Þóra og Sara léku allan leikinn.

Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, lék allan tímann í vörn Umeå-liðsins en þetta var næstsíðasti leikur hennar á ferlinum.

Þetta var tíundi sigurleikur Malmö í röð eftir að deildin byrjaði aftur eftir EM-fríið og Þóra hefur haldið marki sínu hreinu í átta af þessum tíu leikjum.

Sara Björk var að skora sitt áttunda deildarmark á tímabilinu og er hún fjórði markahæsti leikmaður liðsins á eftir þeim Önju Mittag, Ramonu Bachmann og Manon Melis.

Malmö vann titilinn einnig árið 2011 og missti síðan af honum til Tyresö á dramatískan hátt í fyrra þegar liðin mættust í óopinberum úrslitaleik í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×