Fótbolti

Mourinho gekk útaf blaðamannafundi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Nordicphotos/Getty
Jose Mourinho var ósáttur við blaðamenn í Rúmeníu í dag. Chelsea mætir Steaua Búkarest í Meistaradeildinni á morgun.

Eftir nokkrar almennar spurningar var Mourinho spurður út í hvers vegna ekkert pláss hefði verið fyrir Kevin de Bruyne í leikmannahópnum fyrir leikinn.

„Þetta er frábært því nú spyr enginn út í Mata,“ sagði Mourinho. Blaðamenn hafa mikið fjallað um lítinn spiltíma Spánverjans Juan Mata sem af er tímabili.

„Þið hafið tönnlast á Mata í þrjár vikur. Nú spyrjið þið út í Kevin,“ sagði Portúgalinn.

„Þið eruð hrifnir af leikmönnunum sem spila lítið. Hann var ekki valinn. Ég tók þá ákvörðun. Aðeins ellefu geta spilað leikina og ég reyni að velja miðað við frammistöðu í leikjum og æfingum.“

Mourinho bætti því við að bætt frammistaða Mata í leikjum og æfingum hefði skilað sér í leiktíma. Spánverjinn kom með ferska vinda inn í Lundúnaslaginn gegn Tottenham um helgina.

„Ég kunni ekki við frammistöðu Kevin gegn Swindon (í deildabikarnum) og ég kunnu ekki við afstöðu hans á æfingu,“ sagði Mourinho, þakkaði fyrir sig og gekk út með nógu miklum látum að stóll féll á jörðina.

Edin Hazard verður ekki til taks í leiknum vegna meiðsla. Chelsea þarf nauðsynlega á sigri að halda eftir 2-1 tapið gegn Basel í fyrstu umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×