Fótbolti

Flottur sigur hjá Elmari og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theódór Elmar Bjarnason.
Theódór Elmar Bjarnason. Mynd/NordicPhotos/Getty
Theódór Elmar Bjarnason og félagar hans í Randers unnu 3-2 heimasigur á AaB í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en AaB er í öðru sæti deildarinnar og Randers höfðu ekki unnið í síðustu þremur leikjum sínum.

Theódór Elmar Bjarnason var á miðju Randers og lék allan leikinn. Hann átti þátt í sigurmarki Randers sem kom sextán mínútum fyrir leikslok.

Randers var aðeins búið að fá eitt stig úr úr síðustu þremur leikjum og hafði ekki náð að skora mark í neinum þeirra. Þetta byrjaði ekki vel í kvöld þegar Kasper Kusk kom AaB í 1-0 eftir aðeins níu mínútna leik.

Viktor Lundberg jafnaði í 1-1 á 27. mínútu og aðeins ellefu mínútum varð Patrick Kristensen, leikmaður AaB, fyrir því óláni að senda boltann í eigið mark. Þjálfari hans var ekki ánægður og tók Kristensen útaf í hálfleik.

Varamaðurinn Rasmus Jönsson jafnaði í 2-2 á 69. mínútu en Jonas Kamper kom Randers aftur yfir aðeins fimm mínútum síðar. Theódór Elmar vann þá boltann og Randers-liðið skoraði úr skyndisókninni sem kom í framhaldinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×