Viðskipti innlent

Minjagripaverslunum bannað að selja lunda, kindur og trékýr

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Vörurnar sem lagt var á tímabundið sölubann voru ekki CE-merktar, en það bendir til að varan sé ekki öruggt leikfang fyrir börn.
Vörurnar sem lagt var á tímabundið sölubann voru ekki CE-merktar, en það bendir til að varan sé ekki öruggt leikfang fyrir börn.
Starfsmenn Neytendastofu fóru í sex minjagripaverslanir í miðbæ Reykjavíkur vegna ábendingar um að til sölu væru leikföng sem væru ekki í lagi. Alls voru skoðuð 22 leikföng í umræddum búðum og af þeim voru aðeins tvær vörur eða 9% í lagi.

Í umræddum búðum var sett tímabundið sölubann á alls 11 vörur en á hinar níu voru gerðar athugasemdir, þar sem farið var fram á afhendingu gagna, en ekki sett á tímabundið sölubann að svo stöddu.

Þær minjagripaverslanir sem hér um ræðir eru The Viking og Ísbjörninn á Laugavegi, Rammagerðin í Hafnarstræti, Islandia í Bankastræti og Thorvaldsensfélagið í Austurstræti.

Samkvæmt tilkynningu frá Neytendastofu var í verslun The Viking sett tímabundið sölubann á a) lunda mjúkdýr (framleiðandi ótilgreindur), b) kind framleidda af Happy day, c) hvítan selkóp framleiddan af Happy day og d) lunda einnig framleiddan af Happy day.

Í verslun Rammagerðarinnar var sett tímabundið sölubann á a) Sprella framleiddan af Kozy by Alma, b) Trékýr framleidda af leikfangaverksmiðjunni Stubbi, c) Monstrarnir brúða einnig framleidda af Kozy by Alma og d) Leikfang til þess að hengja á vagn framleitt af Made by Grandma.

Í verslun Ísbjarnarins var sett tímabundið sölubann á Monstrarnir brúða framleidda af Kozy by Alma.

Í verslun Thorvaldsensfélagsins var sett tímabundið sölubann á ljóshærða Dúkku (Anna) framleidda af Drífa ehf.

Í verslun Islandia og Ísey var ekki sett tímabundið sölubann á neina vöru að svo stöddu.

Vörurnar sem lagt var á tímabundið sölubann voru ekki CE-merktar, en það bendir til að varan sé ekki öruggt leikfang fyrir börn. En eingöngu er heimilt að setja á markað leikföng sem merkt eru með CE-merki. Einnig var nokkuð um að það vantaði framleiðanda, framleiðsluland, varúðarmerkingar auk leiðbeininga.

Athygli skal þó vakin á því að engar tilkynningar hafa borist Neytendastofu um slys af völdum ofangreindra leikfanga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×